22. júní. 2012 02:01
Landeigendur hafa lokað veginum í kringum Eyrarfjall, sem stendur við Grundarfjörð. Sé ekið Hjarðarbólsmegin að fjallinu er komið að lokuðum vegi. Þar er skilti sem segir einkavegur og stórum steinum sem hefur verið raðað þvert á veginn til að loka umferð. Einnig er búið að strengja gaddavír yfir veginn. Er þetta mörgum heimamönnum til mikilla ama en vegurinn er gamall sveitarvegur sem gaman er að keyra, einstaklega falleg náttúra er í kringum fjallið og þangað fara heimamenn gjarnan í ber á haustin.
Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði, segir málið afar flókið. „Þessi vegstubbur sem um ræðir er ekki á aðalskipulagi en það hefur staðið til að færa hringveginn um Eyrarfjall úr landeigninni. Vegna forgangsröðunar innan sveitarfélagsins hefur það hins vegar ekki komist til framkvæmda,“ sagði Sigurborg.
Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni að hringvegurinn um Eyrarfjall, líkt og svo margir aðrir fallegir vegir á landinu, hafi verið felldur út af vegaskrá. „Vegurinn er því varla ökufær, djúpir troðningar eru í honum og lækir sem þarf að keyra yfir. Honum hefur ekkert verið viðhaldið,“ sagði Ingvi Árnason deildarstjóri svæðismiðstöðvar Vegagerðarinnar í Borgarnesi í samtali við Skessuhorn. Aðgerðir landeigenda séu því ekki á skjön við reglugerðir. Þá bendir Ingvi á að hægt sé að sækja um í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar sem úthlutar styrkjum til sveitarfélaga og félagasamtaka til viðhalds á vegum sem eru utan þjóðvega.
„Framtíðardraumur okkar er auðvitað sá að vel ökufær malarvegur verði í kringum Eyrarfjall. Sérstaklega ef frekari uppbygging verður á landnámsstaðnum okkar, Öndverðareyri, þar sem meðal annars er að finna merkar fornminjar. Bæjarstjórn Grundarfjarðar bindur að sjálfsögðu vonir við að farsæl lausn fáist í málinu í sátt við landeigendur,“ sagði Sigurborg að lokum.