25. júní. 2012 08:01
Þorleifur Geirsson í Borgarnesi hefur gefið út nokkrar tegundir af póstkortum með myndum frá Borgarnesi og Borgarfirði. Myndirnar eru teknar af Þorleifi sjálfum frá ýmsum sjónarhornum, jafnt sumar og vetur. Að sögn Þorleifs, þá hefur lítið verið gefið út af póstkortum með myndum frá Borgarnesi og nágrenni. Ekki þurfi að deila um fegurð svæðisins og því hafi hann brugðið á það ráð að gefa út nokkrar tegundir af póstkortum. Póstkortin eru með skýringartexta á íslensku og ensku á bakhliðinni. Þorleifur mun dreifa póstkortunum til ferðamannastaða og verslana í Borgarnesi og nágrenni þar sem þau koma til með að vera til sölu. Auk póstkortanna hefur Þorleifur einnig selt sérstakt dagatal með myndum úr héraði. Sjá má myndir og nálgast frekari upplýsingar um póstkortin og dagatalið á heimasíðu Hvítá travel, ferðaþjónustufyrirtækis Þorleifs, www.hvitatravel.is