25. júní. 2012 11:31
Áhöfnin á Grundfirðingi SH-24, báti fyrirtækisins Soffaníasar Cecilssonar hf., var á fullu á föstudaginn síðasta að gera bátinn kláran fyrir slipp en Grundfirðingur hefur verið á blálönguveiðum síðan í byrjun maí. Áhöfnin mætti klukkan átta um morguninn og tæmdi bátinn. Öll kör voru tekin úr bátnum og öll færibönd og grindur teknar í land og þrifið, hvert snitti um borð var þrifið og allt með sýruvask. Grundfirðingur fer í slipp í Stykkishólmi um næstu mánaðarmót og haldið verður aftur til veiða 27. ágúst.
Kjartan Valdimarsson skipstjóri Grundfirðings segir blálönguveiðarnar hafa gengið misvel og mikið af háfi hafi veiðst á línuna. „Við fórum sex vikutúra á blálöngu. Það var frekar rólegt, minni veiði miðað við síðasta ár og alveg rosalega mikið af svartháfi. Á hverjum línurekka eru 1300 krókar og það þykir fínt að fá 250 þorska á einn rekka á þorskveiðum. Við vorum að fá 7-800 háfa á hvern rekka og ef við fórum of grunnt þá fórum við að fá mikið af keilu. Fyrir sjómannadag vorum við að fiska í vinnsluna en eftir það fór allt á markað hjá okkur.“ Kjartan er ánægður með að fara í sumarfrí og segir að blálönguveiðin hafi verið góð búbót. „Það er bara flott að fara í sumarfrí, maður fer bara að mála og leika sér með stöngina. Þessar veiðar eru nýjar fyrir okkur, þetta er í annað sinn sem við stundum þær. Árið 2009 og 2010 fórum við í sumarstopp 6. maí. Það er of langt sumarfrí, þannig að blálangan er búin að lengja úthaldið hjá okkur. Þetta er líka búinn að vera leiðinlegur vetur, frá mánaðarmótunum september-október var leiðinlegt veður alveg fram yfir páska. Þannig að það er bara fínt að taka sér sumarfrí,“ segir Kjartan að lokum.