27. júní. 2012 10:53
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag að ráða Jón Rúnar Hilmarsson í stöðu skólastjóra leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, Skýjaborgar og Heiðarskóla, en áður hafði fræðslu- og skólanefnd Hvalfjarðarsveitar mælt með honum í starfið. Tólf sóttu um en bæði sveitarstjórn og fræðslu- og skólanefnd voru einróma um að Jón Rúnar Hilmarsson væri hæfasti umsækjandinn um stöðu skólastjóra og uppfyllti menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda.
Jón Rúnar hefur frá árinu 2005 verið skólastjóri í austanverðum Skagafirði. Var skólastjóri Grunnskólans á Hofsósi og Sólgarðaskóla 2005-2007 og síðan skólastjóri Grunnskólans austan vatna frá 2007 eftir sameiningu fyrrnefndra skóla við Grunnskólann á Hólum í Hjaltadal. Jón Rúnar útskrifaðist með B.ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands sem grunnskólakennari vorið 1992, lauk B.Sc viðskiptafræði fjármálasvið frá HA 2004, diplómanámi í uppeldis- og kennslufræði frá H. A. 2007 og M. Ed. prófi 60 eininga meistararitgerð frá Háskólanum Akureyri 2010. Hann stundar nú nám fyrir fræðslu- og skólastjóra; heiltæk forysta á Menntavísindasviði 2012-2013. Þá var Jón Rúnar umsjónarmaður unglingastarfs í félagsmiðstöðinni Garðalundi 1999-2004, framkvæmdastjóri Samfés frá 1999-2004 og framkvæmdastjóri Dream Voices ehf frá 2006 samhliða skólastjórastarfinu.