Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. júní. 2012 12:02

Edda gaf Eddulíf líf

Í upphafi þessa mánaðar veiktist fylfull hryssa í eigu þeirra Guðjóns Guðlaugssonar og Guðríðar Hlífar Sigfúsdóttur í Borgarnesi. Hafa þau hagabeit og aðstöðu fyrir hross sín í Fíflholtum á Mýrum. Hryssan var komin nærri köstun þegar hún veiktist af ókunnum ástæðum, hafði líklega fengið heilablóðfall. En gefum Guðríði Hlíf orðið:

„Það var í hádeginu laugardaginn 2. júní sem haft var samband við okkur og látið vita af veikri hryssu í Fíflholtum. Við fórum strax vestur og náðum sambandi við Gunnar Gauta dýralækni sem staddur var á sömu slóðum í vitjun. Hryssan Gola var auðsjáanlega mikið veik. Reynt var að gefa henni ýmis lyf en allt kom fyrir ekki. Áfram dró af hryssunni og næsta kvöld var ákveðið í samráði við Eddu Þórarinsdóttur dýralækni að freista þess að bjarga folaldinu þegar sýnt þótti að hryssunni yrði ekki bjargað. Framkvæmdi Edda keisaraskurð á Golu að kvöldi 3. júní og viti menn; í heiminn kom jarpt og mjög smágert merfolald undan stóðhestinum Þristi frá Feti,“ segir Guðríður Hlíf og bætir því við að móður þess, hryssuna Golu, hafi í kjölfarið þurft að aflífa.

En þá voru góð ráð dýr, folaldið sem fengið hafði nafnið Eddalíf var móðurlaust og þar að auki fætt sex vikum fyrir tímann. Í fyrstu var reynt að fá hryssu á Álftárósi sem misst hafði folald til að gangast við Eddulíf en það gekk ekki. Því var folaldinu gefinn kúabroddur í upphafi en áköf leit hófst jafnframt á Internetinu að fóstru fyrir litla folaldið. Þökk sé Facebókinni bar sú leit árangur og var hryssan Selja frá Skeggjastöðum sótt austur í Hrunamannahrepp, fengin að láni og gekk hún Eddulíf í móðurstað. Stöðugt var vakað yfir veikbyggðu folaldinu og tók fjölskylda þeirra Guðríðar Hlífar og Guðjóns virkan þátt í því; börn, barnabörn og frændfólk. Allir lögðust á eitt að koma næringu í folaldið á eins eða tveggja klukkustunda fresti og síðar að hjálpa því á spena hjá fóstru sinni. „Eftir að Eddalíf komst á spena og fór að fá góða kaplamjólk hefur allt gengið mjög hratt fram á við. Miðvikudaginn 6. júní fór hún að standa upp hjálparlaust og tveimur dögum síðar komst hún sjálf á spena. Í tvígang þurfti að vísu að gefa henni penesilín til að hressa hana við. Sunnudaginn 24. júní fórum við síðan með þær mæðgur Eddulíf og Selju og slepptum í hagann í Fíflholtum. Þar tóku hin hrossin vel á móti þeim. Það er enginn vafi að Edda dýralæknir vann gott verk og kom litla folaldinu til bjargar. Þá hafa ýmsir fleiri og ekki síst fjölskyldan öll átt sinn þátt í að Eddalíf er nú eins og hvert annað folald; frjáls og heilbrigð í haganum með fóstru sinni,“ segir Guðríður Hlíf að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is