29. júní. 2012 10:01
Um þessar mundir gefst Akurnesingum og gestum bæjarins færi á að bregða sér í listasetrið Kirkjuhvol og sjá þar sýningu Gyðu L. Jónsdóttur, „Úr ýmsum áttum“, sem opnuð var á þjóðhátíðardaginn síðastliðinn. Þar sýnir Gyða verk af ýmsum toga; smærri höggmyndir, vatnslitamyndir og olíumálverk. Hún hefur áður haldið sýningar í Vínarborg, Birmingham, Kaupmannahöfn og á Akranesi, þar sem hún býr nú.
„Ég er eitt ellefu systkina og hér eru fimm þeirra nú búsett, svo að hér er gott að vera,“ segir hún, en hún var um langt skeið búsett erlendis og er nýlega flutt aftur heim til fósturjarðarinnar. „Árið 1963 fór ég í skóla til Bandaríkjanna, þá tvítug, og þar dvaldist ég í tvö ár, lærði auglýsingateikningu við Art Instruction School. Síðan fór ég í skóla í Englandi árið 1967, þar sem ég lærði höggmyndalist við Sir John Cass College og Central School of Art í London. Og þar giftist ég árið 1970.“
Ítarlegt viðtal við Gyðu Jónsdóttur má finna í Skessuhorni vikunnar.