Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. júní. 2012 01:33

Miðsumarrallý BÍKR haldið í óþökk heimafólks

Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur hefur fengið leyfi sýslumannsins í Borgarnesi til að halda svokallað Miðsumarrallí á malarvegunum sem liggja um Kaldadal, veginum að Surtshelli í Hallmundarhrauni frá Kalmanstungu, aftur til baka sömu sérleiðir og um hluta Uxahryggjavegar. Rallíkeppnin fer fram seint annað kvöld, föstudaginn 29. júní, og fram á nótt. Ræst verður inn á fyrstu sérleið um Kaldadalsveg klukkan 22:15 en þá síðustu klukkan 01:15 þegar ekinn verður kafli af Uxahryggjavegi niður að Þverfelli. Heimamenn hafa lýst óánægju með rallíakstur sem þennan á viðkvæmum malarvegum sem nú bera fyrst og fremst merki um skort á viðhaldsfé. Skemmst er að minnast bókunar sem samþykkt var á fundi umhverfis- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar 15. júní sl. þar sem fjallað er um ástand malarvega í sveitarfélaginu. „Nefndin telur óásættanlegt hve viðhald malarvega er lítið af hálfu Vegagerðarinnar. Víða eru vegir hvorki rykbundnir né heflaðir í sveitarfélaginu. Afar erfitt er fyrir matvælaframleiðendur og ferðaþjónustuaðila að búa við þessar aðstæður. Ferðamenn sniðganga malarvegi í þessu ástandi eins og kostur er. Auk þess sem þetta hefur víðtæk áhrif á daglegt líf íbúa. Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að beita sér í þessu máli,“ segir í bókuninni.

 

„Fráleitt að loka vegi að ferðaþjónustu“

„Mér þykir það skjóta skökku við að á krepputímum þegar ekki fæst nokkurt fé til vegabóta að þá skuli vera leyft að halda akstursíþróttamót á vegunum sem vitað er fyrirfram, eins og tíðarfarið er í dag með þurrum vegum, að allt laust og fíngert vegaefni mun fjúka úr þeim,“ segir Snorri Jóhannesson veiðivörður á Arnarvatnsheiði og ferðaþjónustuaðili við Hraunfossa. Snorri bendir á í þessu samhengi að vegurinn frá Kalmanstungu sé eina aðkoman að Arnarvatnsheiði þar sem rekin er ferðaþjónusta og veiðimenn eru gjarnan á ferðinni seint á föstudagskvöldum. „Auk þess má geta þess að nú standa yfir fjárflutningar á Arnarvatnsheiði og þessi tími sólarhringsins er gjarnan notaður til þeirra flutninga enda eru bændur beðnir um að vera ekki með fjárkeyrslu á mesta annatíma á vegunum. Í aðdraganda þess að leyfi var veitt var ekki haft fyrir því að hafa samband við nokkurn þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta, svo sem Veiðifélagið á Arnarvatnsheiði,“ segir Snorri.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns er urgur meðal starfsmanna Vegagerðarinnar vegna þess að leyfi hafi verið gefið fyrir fyrrgreindri rallýkeppni, enda vita menn þar að fjármagn til viðhalds malarvega er í sögulegu lágmarki. Nú er einmitt nýlega búið að lagfæra vegina að Surtshelli og Kaldadalsveg fyrir ferðaþjónustutímabilið og verður ekki um frekari lagfæringar á þeim vegum að ræða í sumar.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is