29. júní. 2012 06:30
Landnámssetrið í Borgarnesi fékk sérlega ánægjulegt bréf frá vefsíðunni TripAdvisor í vikunni. TripAdvisor er afar vinsæl heimasíða þar sem ferðamenn geta gefið einkunn fyrir þjónustu og vöru sem þeir nýta á ferðalögum sínum. Undanfarin ár hefur Landnámssetrið fengið afburða góða meðaleinkunn eða 4,5 af 5 mögulegum og af því tilefni fær Landnámssetrið viðurkenningu sem fyrirtæki sem veitir afburðaþjónustu, Certificate of Excellence. Í bréfinu frá TripAdvisor segir að þessi viðurkenning sé aðeins veitt framúrskarandi fyrirtækjum í alþjóðlegum ferðaþjónusturekstri.
Að sögn Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur, húsráðanda við Landnámssetrið, er viðurkenning sem þessi afar mikilvæg því það er sífellt algengara að fólk fari inn á þessar síður þegar það skipuleggur ferðalag sitt og lesi umsagnir þeirra sem þegar hafa komið á staðina.