29. júní. 2012 02:01
Tíunda bókin í grundfirska bókaflokknum „Fólkið Fjöllin Fjörðurinn“ kemur út á morgun, laugardaginn 30. júní. Að þessu sinni má meðal annars finna í bókinni skrif Hreins Ragnarssonar sagnfræðings um síldveiðar Grundfirðinga. Ennfremur skrifar Sunna Njálsdóttir sögu kvenfélagsins Gleym mér ei, Ágústa Rós Árnadóttir sagnfræðingur skrifar um Skákþing Íslands sem var haldið í Grundarfirði í tengslum við 200 ára kaupstaðarréttingin árið 1986, Árni Emilsson skrifar um athafnamanninn Ragnar Haraldsson og þá er einnig að finna frásögn Elísabetar Helgadóttur frá því þegar hún kom fyrst til Grundarfjarðar og árin hennar á Kvíabryggju. Þórunn Kristinsdóttir skrifar afmælishugleiðingar um verkalýðsfélagið Stjörnuna og í bókinni er allir fermingarárgangar frá 1935 - 2012.
Það er bókaforlagið Skrudda sem gefur bókina úr fyrir Eyrbyggja, Hollvinafélag Grundarfjarðar en innihaldið er skilgreint sem safn til sögu Eyrarsveitar. Þetta einstaka afrek spannar nú um 2200 blaðsíður. Bókin fer í sölu í Grundarfirði í næstu viku og að auki verður hún send til þeirra sem fermdust í Grundarfirði og eru orðnir þrítugir. Aðrir geta haft samband við stjórn Eyrbyggja á netfangið eyrbyggjar@grundarfjordur.is eða nálgast bókina í Hrannarbúðinni í Grundarfirði.