04. júlí. 2012 08:01
Þessa vikuna standa yfir siglingaæfingabúðir í Stykkishólmi sem haldnar eru af Siglingasambandi Íslands og Siglingadeild Snæfells. Búðirnar byrjuðu 2. júlí og munu standa til sunnudagsins 8. júlí. Búðirnar eru árlegar og hafa flakkað um landið milli ára. Úlfur Hróbjartsson stjórnarformaður Siglingasambands Íslands segir að tæplega 40 krakkar séu í æfingabúðunum og með þeim fylgi foreldrar og fjölskylda. „Dagurinn í gær fór mikið í að koma krökkunum fyrir og í dag er í raun fyrsti alvöru siglingadagurinn. Krakkarnir eru að frá klukkan níu um morguninn til fimm á daginn. Þau eru eingöngu að læra á seglbáta. Þau taka að vísu hádegismat og svo seinni partinn er farið í létta leiki og þá eru yfirleitt allir orðnir hundblautir. Þau leika sér tildæmis í boltaleikjum, þar sem gæslubátarnir eru mörkin. Þá kasta þau boltanum milli báta og reyna að koma honum ofan í gæslubátana. Allt er þetta gert til að þau læri að treysta bátunum, að skynja jafnvægið og sjóinn,“ segir Úlfur.
Í búðunum er erlendur siglingaþjálfari sem vinnur með íslensku þjálfurunum í að bæta þekkingu þeirra og færni í þjálfun. „Siglingaíþróttin hefur vaxið hratt hér á landi á undanförnum árum. Við önnum í raun ekki eftirspurn, því okkur vantar fleiri báta til landsins. Á síðasta ári fengum við verðlaun frá Alþjóðasiglingasambandinu fyrir uppbyggingu. Þannig að það er tekið eftir starfinu okkar,“ segir Úlfur að lokum.