Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. júlí. 2012 09:01

Mikil gróska hjá feðgunum á Hóli

Óhætt er að segja að mikil gróska sé hjá feðgunum á Hóli í Svínadal þeim Guðmundi Friðjónssyni og Friðjóni syni hans. Á laugardaginn luku þeir að slá fyrri slátt og Guðmundur segir slíkt aldrei hafa gerst svo snemma áður á fjörutíu og fjögurra ára búskapartíð hans á Hóli. Auk þess að heyja á heimatúnum á Hóli eru þeir feðgar með hjáleigur en þeir leigja tún í Hlíð og hluta túna í Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd þar sem þeir eru með kornræktina líka.

 

 

 

 

Byggið farið að skríða

Vel lítur út með kornið sem þegar er farið að skríða, eins og sagt er, þegar axið fer að myndast. Friðjón segir byggið hjá þeim hafa verið komið í svipaða stöðu núna þann þrítugasta júní og venjulega sé um miðjan júlí. „Að vísu sáði ég óvenju snemma núna, eða 15. apríl,“ segir Friðjón. „Það gat ég gert vegna þess að ég plægði þetta í haust og tætti. Þá gat ég farið um leið og jörð þornaði nóg til að sá í þetta. Þrátt fyrir nokkrar frostnætur í maí þá blessaðist þetta enda kornið ekki farið að spíra. Við erum með átta og hálfan hektara undir korn hérna og notum þetta allt fyrir blandaða búskapinn okkar á Hóli, gefum þetta bæði kúm og kindum.“ Friðjón sagði þá hafa verið að slá tún í Kalastaðakoti fimmtudaginn 28. júní og þá hafi kornið ekki verið byrjað að skríða. „Svo sá ég að það var aðeins að taka við sér á föstudaginn og á laugardaginn var þetta komið á fulla ferð. Það hefur verið mjög hlýtt núna í júní og þess vegna æðir þetta áfram.“ Þegar talað var við Friðjón var hann að undirbúa að sá grasfræi í fyrrum kornakur í Kalastaðakoti en reglulega þarf að skipta milli grasræktar og kornræktar. „Það þýðir ekkert að hafa korn í þessu of mörg sumur og þetta sem ég er að sá í núna gaf lítið korn í fyrra.“ Hann segist hafa byrjað að þreskja kornið í lok september í fyrra en reiknar með að vera mun fyrr á ferðinni núna ef vel viðrar í sumar. Friðjón sagði þá eingöngu rækta bygg og afbrigðið kallist filippa.

Friðjón segir þá feðga hafa verið að fá um sextíu tonn af súru korni, eins og hann kallar það, upp úr ökrunum í Kalastaðakoti og Guðmundur faðir hans segir þá kaupa um sjö tonn af kjarnfóðri til viðbótar. Hann segir þá einnig gefa kúnum svolítið af byggi nú yfir sumartímann fyrst nóg sé til af korni. „Það eykur nytina í þeim og mér finnst þær mjólka mun betur núna en áður. Við prófuðum þetta í fyrra og mér fannst það strax gefa góða raun. Svo er ágætt að gefa fénu þetta á sauðburði.“

Guðmundur var heima á Hóli á mánudaginn að ljúka við að keyra heyið heim úr fyrsta slætti sem hófst 9. júní og lauk á laugardaginn. „Þó ég hafi heyjað svona þá eru flestar spildurnar að gefa af sér svipað og í fyrri slætti í fyrra. Svo gefur maður þessu svona fimm vikur milli slátta þannig að ég gæti farið að slá aftur upp úr miðjum júlí. Það lítur vel út með sprettu á heimatúnunum sem ég sló fyrst,“ sagði Guðmundur.

Þurrkarnir að undanförnu hafa því ekki haft mikið að segja á grasvöxtinn hjá þeim feðgum. „Við bárum svo snemma á að áburðurinn náði að síga svo vel niður í jarðveginn. Svo eru þessi tún á gömlum mýrum þannig að þetta er rakagefinn jarðvegur. Þetta er auðvitað ógurlegur þurrkur sem búinn er að vera en hlýindin hjálpa til og náttfall sem hefur verið mikið. Það eru engin tún hér með grunnum jarðvegi, sem gjarnan sólbrenna í svona árferði en þessi tíð er mjög mikið góðæri fyrir okkur.“

Um fimmtíu kýr eru á Hóli, auk ungnauta og tvö hundruð fjár. „Þetta eru svona 150 gripir í allt með þessum kálfum. Við setjum alla kálfa á hér og ölum þá upp í sláturstærð,“ sagði Guðmundur Friðjónsson bóndi á Hóli í Svínadal.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is