06. júlí. 2012 06:31
Opinberu háskólarnir, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum, nota nú allir sama upplýsingakerfi fyrir skráningu nemenda og samskipti nemenda og kennara. Upplýsingakerfið gengur undir heitinu Ugla og felur í sér safn hugbúnaðarkerfa sem eru sérhönnuð fyrir háskólastarfsemi og styðja við ýmsa umsýslu og þjónustu innan háskóla. Helstu markhópar eru nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn.
Þeir háskólar sem nú taka upp hið nýja kerfi eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli-Háskólinn á Hólum. Öll gögn háskólanna þriggja hafa nú verið flutt yfir í hið nýja kerfi og fram undan er áframhaldandi þróun þess til að þjóna sem best þörfum allra skólanna. Uglan leysir af hólmi upplýsingakerfið Stefaníu sem þróað var innan Háskólans á Akureyri og hefur undanfarin ár þjónað Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla auk HA. Innleiðing Uglunnar meðal annars lykill að frekara samstarfi opinberu háskólanna þar sem samræmd skráningarkerfi og samræmt viðmót tölvukerfa auðvelda bæði nemenda- og starfsmannaskipti milli skólanna, eins og segir í fréttatilkynningu um málið.