05. júlí. 2012 10:25
Skagamenn töpuðu 2-0 fyrir Fram á Laugardalsvellinum í Pepsí-deild karla í kvöld. Fyrir leikinn var ÍA í 6. sæti með 14 stig en Fram í því næstneðsta með einungis sex stig.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur en gestirnir virtust óöruggir og héldu illa boltanum. Fyrsta markið kom á 18. mínútu en það var Englendingurinn Steven Lennon sem átti fast skot framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki Skagamanna. Gestirnir efldust þó þegar leið á fyrri hálfleik, áttu nokkur hættuleg færi og virtist jöfnunarmarkið liggja í loftinu.
Skagamenn komu inn í síðari hálfleik af sama krafti. Á 51. mínútu lentu Jóhannes Karl Guðjónsson og varnarmaður Fram saman er þeir fóru báðir upp í sama skallabolta. Um tíma virtist allt ætla upp úr að sjóða og fengu Jóhannes Karl og Sam Tillen í Fram báðir að líta gula spjaldið fyrir mótmæli. Annað mark gestanna kom fljótlega eftir þetta atvik eftir klaufaleg mistök í vörn Skagamanna. Þjálfari ÍA, Þórður Þórðarson, freistaði þess að snúa vörn í sókn og gerði þrjár breytingar á liðinu á fimm mínútum. Útaf fóru Mark Doninger, Garðar Gunnlaugsson og Dean Martin en inn á komu Ólafur Valur Valdimarsson, Jón Vilhelm Ákason og Eggert Kári Karlsson. Við það efldist sóknarleikur Skagamanna til muna og áttu þeir nokkur góð skot á markið, meðal annars átti Jóhannes Karl skot í slána úr aukaspyrnu á 67. mínútu. Inn fór boltinn hins vegar ekki og lokatölur 2-0 fyrir Fram.