10. júlí. 2012 02:01
Að sögn Auðuns Óskarssonar landeiganda að Rauðkollsstöðum þar sem sinubruninn varð í gær var honum létt að náðst hafi að stemma stigu við eldunum. Þegar Skessuhorn náði tali af honum í dag lýsti hann því fyrir blaðamanni að einhver eldur brynni enn neðanjarðar í mó. Slíkur eldur sé erfiður viðureignar og slokknar ekki fyrr en glóð nær niður að grunnvatni sem er á 50-60 sentimetra dýpi. Auðunn vaktar nú mýrarflóann sem brann dyggilega ásamt heimilisfólki á Rauðkollsstöðum en enn ríkur sumstaðar úr jörð vegna glóða neðanjarðar. „Undanfarin sólarhringur hefur verið þungur. Sem betur fer slapp skógrækt okkar við eldana sem geisuðu einungis á beitilandi rammað djúpum skurðum,“ sagði Auðunn. Hann bætir því við að gríðarlegur þurrkur sé á þessum slóðum og eina úrkoman sem komið hefur voru smávægileg skúrir fyrir tæpri viku. Því sé brýnt fyrir fólk að halda eldi fjarri grasi.