Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. júlí. 2012 08:01

Beiðni Sæferða um undanþágu vegna skoðunar á arnarhreiðrum hafnað

Umhverfisstofnun hafnaði þann 6. júlí sl. umsókn Sæferða í Stykkishólmi um undanþágu til að sigla að tveimur arnarhreiðrum í Seley og Skjaldarey á Breiðafirði. Ekki verður því hægt að sigla nærri hreiðrum en 500 metra fyrr en að loknu banntímabilinu sem lýkur 15. ágúst. Ástæðurnar eru fyrst og fremst slakur árangur í varpi í báðum hreiðrum undanfarin ár. Í ákvörðun Umhverfisstofnunar segir að auki að ábendingar hafi borist stofnuninni þess efnis að Sæferðir hafi þegar og án leyfis hafið siglingar nærri arnarhreiðrum. Einnig kom fram í skýrslu Sæferða um siglingar ársins 2011 að fyrirtækið hafi siglt fleiri ferðir að hreiðrum en gert var að skilyrði í þágildandi leyfi og byggði á ábendingum Náttúrufræðistofnunar. Að sögn Hildar Vésteinsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, þá liggur mjög áreiðanlegur grunur um að Sæferðir hafi farið nærri arnarhreiðrunum án leyfis. Þess vegna hafi stofnunin sent málið til meðferðar lögreglu sem nú rannsakar málið.

 

 

 

 

Í áliti Umhverfisstofnunar, sem lesa má á heimasíðu stofnunarinnar, segir að íslenski haförninn sé alfriðaður samkvæmt landslögum. Haförninn nýtur sérstakrar verndar í lögum sem lýsir sér meðal annars í því að ekki megi koma nær arnarhreiðrum en 500 metra nema brýna nauðsyn beri til á tímabilinu 15. maí til 15. ágúst. Undanfarin fjögur ár hefur arnarvarpið í eyjunum tveimur átt erfitt uppdráttar. Segir í álitinu að í öðru hreiðrinu í eyjunum hafi ungar ekki komist upp á umræddu tímabili og í hinu hafi engin ungi komist á legg í síðasta ári.

 

Sæferðir vilja leysa málin með Umhverfisstofnun

Pétur Ágústsson framkvæmdastjóri Sæferða sagði í samtali við Skessuhorn að málið væri í heild sinni sérkennilegt. Í fyrsta lagi væri einungis um að ræða eitt hreiður. „Við höfum frá 1998 siglt í námunda við eitt hreiður, en ekki tvö, til fuglaskoðunar og ætíð lagt okkur fram um að sækja um tilskilin leyfi frá stjórnvöldum. Í vor sóttum við um leyfi 8. maí en fengum ekki svar frá Umhverfisstofnun fyrr en tæpum fimm vikum síðar þar sem beiðni okkar var hafnað. Samkvæmt hefð, sem mótast hefur í samskiptum við stjórnvöld á undanförnum árum, hófum við reyndar að sigla nærri hreiðrunum í vor en eftir að höfnunin barst þá hættum við því samstundis,“ segir Pétur. Hann telur að 500 metra reglan haldi ekki í raun, þar sem fjölmargir sem stunda fiskveiðar í grennd við hreiðrið og eiga ferð í nálægar eyjar sigli innan bannsvæðisins. Pétur segir einnig að áhrif frá skoðunarferðunum Sæferða hafi að öllum líkindum lítil áhrif á ungana „Náttúrulegar aðstæður hafa veruleg áhrif á arnarvarpið. Til dæmis er vitað að eitt árið fauk arnarungi úr öðru hreiðrinu. Að auki tel ég, eftir samtal mitt við náttúrfræðing, að annað arnarparið sé orðið of gamalt og nái ekki að koma á legg ungum,“ segir Pétur og bætir því við að lokum að Sæferðir sjái allan hag í því að leysa þetta mál í samvinnu við Umhverfisstofnun.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is