17. júlí. 2012 01:01
Ber eru snemma á ferðinni þetta sumarið. Starfsmenn Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls hafa tekið eftir því að litur er kominn í krækiberin og hægt sé að týna þau, þó þau séu ekki orðin sæt og safarík.
Sæmundur Kristjánsson í Rifi segir að kominn sé góður litur á krækiberin. Þó séu þau ekki orðin bragðmikil. „Þau eru óvenjulega snemma á ferðinni í ár. Venjulega er hægt að líta eftir þeim um miðjan ágúst, eftir fyrstu vikuna í ágúst í fyrsta lagi. Krækiberin sjást víða svört núna. Þau eru ekki bragðmikil enn, en þau eru að spretta. Bláberin eru enn sætukoppar en líta mjög vel út og eru komin vel af stað. Ef við fáum einhverja rigningu á næstu dögum kemur þetta til með að verða mjög flott. Ef þurrkarnir halda áfram munu berjalingin bara skrælna.“ Nú er bara vonandi að aðeins muni rigna á næstunni svo fólk geti farið í berjamó, ef til vill snemma í ágúst.