25. júlí. 2012 07:01
Um næstu helgi verður haldið upp á norrænu rósahelgina á Grand hóteli í Reykjavík. Það er norræna Rósafélagið sem heldur hátíðina en formaður félagsins í ár er Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Garðyrkjufélags Íslands. Meðal dagskrárliða helgarinnar er morgunráðstefna sem haldin verður á föstudaginn. Þar verður meðal annars greint frá nýjustu rannsóknum í ræktun á rósum auk þess sem rætt verður um mögulegt alþjóðasamstarf í rósarrækt. Meginhluti dagskrár rósahelgarinnar fer hins vegar fram í íslenskum rósagörðum víðs vegar á suðvesturhorninu, þar sem valdir íslenskir rósaræktendur sýna garða sína. Helginni lýkur loks með útigrilli á sunnudeginum Áhugasamir rósaræktendur geta skráð sig til þátttöku á norrænu rósahelginni á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands, www.gardurinn.is