Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. júlí. 2012 07:08

Steinólfs í Fagradal minnst

Steinólfur Lárusson bóndi og lífskúnstner í Ytri Fagradal á Skarðsströnd lést 15. júlí síðastliðinn, 84 ára að aldri. Hann var jarðsettur í kyrrþey síðastliðinn laugardag.

Með Steinólfi er genginn einn litríkasti og skemmtilegasti persónuleiki sem þessi landshluti hefur alið. Varð hann þjóðsagnarpersóna þegar í lifandi lífi, ekki síst fyrir óvenjuleg og hnyttin tilsvör og litskrúðugt tungutak, jafnt í ræðu sem riti. Hann hafði mikla ánægju af samræðum um landsmálin og yfirleitt landsins gagn og nauðsynjar og litaði allt í kringum sig með óborganlegri kímnigáfu. Frásagnarhæfni sína nýtti hann meðal annars til að vekja ráðamenn til umhugsunar um ýmis framfaramál. Hafa sum þessara bréfa varðveist, svo sem Trjónukrabbabréfið og síðar Gilsfjarðarrollan, bréf frá nýársdegi 1990, sem Steinólfur skrifaði samgöngumálaráðherra fjárveitingavaldsins og „gullkreistara ríkisins,“ til að vekja máls á knýjandi nauðsyn þess að brúa hinn illræmda Gilsfjörð, eins og hann orðaði það.

Bréf þetta hafði vafalaust þau áhrif að ráðist var í þverun fjarðarins og brúargerð nokkru síðar. Þá var Steinólfur hvatamaður þess að reist var graskögglaverksmiðja í Saurbæ sem um árabil var svæðinu afar mikilvæg í atvinnulegu tilliti. Safnaði hann af einurð hlutafé til að bygging verksmiðjunnar yrði að reynd. Í graskögglaverksmiðjunni beitti Steinólfur sér m.a. fyrir því að gerðar voru tilraunir með þurrkun á þangi og þá hóf hann fyrstur manna máls á nýtingu verðmætra afurða úr þörungum. Síðar varð sú hugmynd kveikjan að byggingu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum þar sem jarðhiti var nægur. Þannig hafði Steinólfur áhrif beggja megin fjarðar og fyrir það ber að þakka.

 

Steinólfur fæddist og ólst upp í Ytri Fagradal þar sem hann bjó nánast alla tíð, framan af ævinni í félagi við Lárus föður sinn með blandað bú, eða allt til ársins 1987. Síðar tóku Halla dóttir hans og Guðmundur maður hennar við búi. Formlegri skólagöngu Steinólfs lauk að mestu eftir barnaskóla utan þess að einn vetur nokkru síðar fór hann suður og nam jeppaviðgerðir hjá Vélsmiðjunni Stilli og greip í viðgerðir á Willis jeppum eftir það. Hann bjó því í heimhögum mestalla tíð utan nokkurra ára sem hann hélt suður til víðsýniseflingar með þátttöku í starfi til sjós og lands. „Þá fór ég eitt sinn á hrefnuveiðar,“ var haft eftir honum, en svo nefndi hann sjálfur leit sína að kvonfangi og var Hrefna eiginkona hans afrakstur þeirra veiða. „Hún kom að austan og helvíti mikil búkona,“ sagði Steinólfur hlýlega um konu sína þegar hann gaf Skessuhorni viðtal haustið 1999, þá ríflega sjötugur. Kvað hann þá heyrnina farna að daprast. „Nú orðið heyri ég bara það sem ég vil heyra og það kemur sér býsna vel,“ sagði hann m.a. við það tilefni. Hrefna Ólafsdóttir eiginkona Steinólfs var fædd sama ár, 1928, en hún lést 2001. Saman eignuðust þau fjögur börn; Ólöfu Þóru, Sesselju, Höllu Sigríði og Stefán Skafta. Barnabörnin eru níu og tvö eru barnabarnabörnin orðin. Sökum heilsubrests flutti Steinólfur á dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal haustið 2004 þar sem hann dvaldi eftir það.

 

Auk búskapar með fé og nautgripi nytjaði Steinólfur hlunnindi eyjanna, dúntekju og selveiðar meðan enn fékkst verð fyrir skinnin. Þá reyndi hann ýmislegt fyrir sér enda grúskari mikill. Nefna má fiskeldi og þá voru honum löngum hugleikin ýmis framfaramál, eins og vetnisframleiðsla, nýting jarðhita og vindorku eins og búast mátti við af frumkvöðli sem vissulega má segja að Steinólfur hafi verið.

 

Steinólfur Lárusson er öllum minnisstæður sem honum kynntust. Hann var mikill maður vexti og kvaðst sjálfur af galdramönnum kominn og því hæfði að feta ekki endilega sömu vegslóða og aðrir. Auk þess að ylja mönnum með glettnum sögum og frásögnum hafði hann yndi af frásögnum annarra og hló þá „stóra hlátrinum,“ ef svo bar við. Ég læt að lokum fylgja hér sögu af óhappi sem Steinólfur varð fyrir eftir að hann fór á Silfurtún. Svo óheppilega vildi til að gamli maðurinn hafði hrokkið úr mjaðmarliði. Héraðslæknirinn var upptekinn í vitjun úti í sveit og varð því bið á því að hann gæti komið til að kippa Steinólfi í liðinn. Til að létta gamla manninum stundir meðan beðið væri lyfja til að lina kvalirnar, tók hjúkrunarforstjórinn það til ráðs að lesa prestabrandara fyrir karl. Einn brandarinn féll svo vel í kramið hjá Steinólfi að hann setti upp „stóra hláturinn,“ hristist og sló sér á lær svo undir tók og bókstaflega hristi sig í liðinn af hlátri. Læknirinn þurfti ekki að koma í það skiptið.

Að lokum sendi ég hlýjar kveðjur ættingjum og vinum Steinólfs í Ytri Fagradal og Dalamönnum öllum sem misst hafa góðan samferðarmann. Sögurnar, gleðin, uppátækin og umhyggjan munu halda arfleifð hans á lofti.

 

Magnús Magnússon

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is