30. júlí. 2012 06:40
Holmslandkoret, sem starfar í þorpinu Kloster í nágrenni við Ringköbing á Jótlandi er á leiðinni til Íslands. Kórinn heldur tvenna tónleika á Vesturlandi dagana 2. og 3. ágúst. Á Akranesi verða tónleikar í Vinaminni fimmtudaginn 2. ágúst kl. 20.30 og eru þeir í samstarfi við Grundartangakórinn. Tónleikarnir í Stykkishólmi verða svo föstudaginn 3. ágúst. Stjórnandi kórsins er Erla Þórólfsdóttir, sem margir Skagamenn og Hólmarar þekkja, enda sleit hún barnsskónum á þeim slóðum. Kórinn flytur fjölbreytta efnisskrá og eru lögin frá ýmsum löndum.
Holmslandkoret var stofnaður árið 2007 og er þetta hans fyrsta utanlandsferð. Ísland varð fyri valinu, þar sem þrír af kórfélögum hafa komið áður til landsins og eru heillaðir af því og ekki skemmdi fyrir að stjórnandinn og einn af kórfélögum eru Íslendingar.