Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. júlí. 2012 01:30

Reykholtshátíð fer fram um helgina

Reykholtshátíð hefst á morgun og lýkur næsta sunnudag. Að vanda kemur einvalalið tónlistarmanna fram á hátíðinni sem skipað hefur fastan sess í tónlistarlífi hér á landi og er þekkt út fyrir landssteinana. Að sögn Auðar Hafsteinsdóttur, listræns stjórnanda Reykholtshátíðar, er hefð að fá til leiks listamenn frá einu Norðurlandanna. Í ár varð Finnland fyrir valinu en þar sem Auður er sjálf búsett í Finnlandi voru hæg heimatökin. Meðal gesta verður ein skærasta óperustjarna Finna um þessar mundir, sópransöngkonan Sirkka Lampimäki. Auður segir að Lampimäki sé afar marghæf söngkona. Hún verður með fjölbreytta dagskrá þar sem hún mun flytja glæsilegar óperuaríur ásamt sönglögum. Sirkka kemur til landsins beint frá hinni þekktu óperuhátíð í Savonlinna í Finnlandi sem er ein sú virtasta á Norðurlöndunum.

Þá mun einn fremsti fiðluleikari Finna, Réka Szilvay, ásamt píanóleikaranum Heini Kärkkäinen, leika þekktar sónötur en Réka varð strax á barnsaldri þjóðþekkt í Finnlandi fyrir frábæran leik sinn. Auður segir að finnsku gestirnir séu allir mjög spenntir yfir því að fá tækifæri að leika á Reykholtshátíð.

 

Þá er vart þörf á að kynna Vovka Ashkenazy sem verður meðal gesta sem og hornleikarann Joseph Ognibene. Einnig mun ein fremsta sópransöngkona Íslendinga, Þóra Einarsdóttir, halda tónleika ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur og Reykholtstríóinu. Þar verða flutt falleg einsöngslög eftir Rachmaninoff, þekkt íslensk einsöngslög í nýjum útsetningum fyrir píanótríó og sópran og fleiri perlur.

 

Fimm tónleikar

Alls verða haldnir fimm tónleikar á Reykholtshátíð í ár, þar af tvennir söngtónleikar sem er nýbreytni. Efnisskráin er fjölbreytt og verða margar tónperlur fluttar, m.a. eftir Kuula, Sibelius, Beethoven, Brahms, Jón Nordal, Piazzolla og Bartók.

 

Lokatónleikar hátíðarinnar verða sunnudagskvöldið 29. júlí kl. 20:00 þar sem allir tónlistarmenn hátíðarinnar munu leika að sögn Auðar. Hún segir góða bakhjarla standa að baki hátíðinni að vanda. ,,Bakhjarlar Reykholtshátíðar eru Menningarsjóður Vesturlands, Menningasjóður Borgarbyggðar, Fosshótel og aðrir góðir aðilar, ekki síst heimamenn í Reykholti. Án þeirra aðkomu væri erfitt að halda hátíðina,” segir Auður að endingu og vonast til að sjá sem flesta á hátíðinni.

 

Reykholtshátíð fer fram að vanda í Reykholtskirkju. Allar nánari upplýsingar um hátíðina auk miðapantana á tónleikana fimm má finna á heimasíðu Reykholtshátíðar, reykholtshatid.is og midi.is

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is