26. júlí. 2012 03:01
Á morgun fer fram Opna ÍNN golfmótið á Hamarsvelli í Borgarnesi. Það er Golfklúbbur Borgarness sem heldur mótið í samstarfi við sjónvarpsstöðina ÍNN og Ingva Hrafn Jónsson eiganda hennar. Um tímamóta golfmót er að ræða. Annars vegar er um að ræða fimm ára afmælismót sjónvarpsstöðvarinnar og hins vegar 70 ára afmælismót Ingva Hrafns en hann verður sjötugur á morgun. Ingvi Hrafn þarf vart að kynna en hann er með þekktustu fjölmiðlamönnum á Íslandi. Síðustu ár hefur hann helst verið þekktur fyrir vikulega þætti sína, Hrafnaþing. Ingvi og Ragnheiður Sara Hafsteinsdóttir eiginkona hans hafa átt langt samstarf við Golfklúbb Borgarness á undanförnum árum.
"Guðleg forsjá yrði til þess"
Meðan hjónin voru leigutakar Langár á Mýrum stóðu þau fyrir Opna Langármótinu sem haldið var níu sumur á Hamarsvelli. Frá því að leigutímabilinu í Langá lauk fékk mótið nafn ÍNN. Mótin hafa þótt mjög vinsæl meðal íslenskra kylfinga sem ætíð hafa fjölmennt. Í samtali við Skessuhorn kvaðst Ingvi Hrafn búast við hörkuspilamennsku á morgun. Útlit væri fyrir að það verði góð mæting á mótið en síðustu skráningartölur gera ráð fyrir á annað hundrað gesta. Ekki átti hann þó von á að spila á jafnmörgum höggum og aldur hans á morgun, sem er einn undir pari Hamarsvallar. Það yrði þó ekki nema fyrir „guðlega forsjá,“ eins og hann orðaði það.