30. júlí. 2012 08:01
Síðastliðinn laugardag bauð Kaupfélag Borgfirðinga til árlegrar Sumarhátíðar í og við kaupfélagshúsið Egilsholti 1 í Borgarnesi. Þetta er í fimmta skipti sem hátíðin er haldin og sló gestafjöldinn öll fyrri met, að sögn Margrétar Guðnadóttur verslunarstjóra. Á annað þúsund manns sótti hátíðina í blíðskaparveðri, bæði íbúar héraðsins sem ferðafólk. Auk vörukynninga af ýmsu tagi og grillveitinga í boði Búnaðarfélags Mýramanna, var markaður með handverk, bakkelsi og vörur beint frá býli. Húsdýr voru til sýnis, aflraunakeppni héraða fór fram, keppni í bændabrúnku var nýlunda og sitthvað fleira var til gamans gert. Gestir, ungir sem aldnir, létu afar vel af hátíðinni sem vafalítið verður áfram fastur liður í menningu héraðsins.
Fjöldi mynda frá hátíðinni verður í Skessuhorni nk. miðvikudag.