30. júlí. 2012 02:01
Arnarstofninn í landinu hefur vaxið eftir stöðnun frá 2005 og telur nú 69 pör. Arnarvarpið í sumar var hins vegar með slakasta móti, að því er fram kemur í frétt frá Náttúrufræðistofnun. Þar segir að vitað sé um 21 par með 28 unga sem verða fleygir um miðjan ágúst. Varp misfórst hins vegar hjá meirihluta þeirra 45 arnarpara sem urpu í vor. Væntanlega hefur kuldakastið í fyrrihluta maí átt mestan þátt í því. „Ernir verpa snemma eða um miðjan apríl og eru því viðkvæmir fyrir vorhretum og eins truflunum af mannavöldum sem því miður þekkist enn á vissum svæðum,“ segir í fréttinni. Arnarvarpið í sumar gekk ágætlega við Faxaflóa en afar illa við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Enginn ungi komst upp við norðanverðan fjörðinn og aðeins einn ungi er að verða fleygur um þessar mundir á Vestfjörðum.