31. júlí. 2012 12:39
Skagamenn lutu í gras í gærkvöldi gegn liði KR 2-0 í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á heimavelli KR í Frostaskjóli í Vesturbæ Reykjavíkur í blíðskaparveðri. KR-ingar réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og áttu Skagamenn fá svör við leik þeirra röndóttu. Heimamenn komust yfir strax á sjöttu mínútu þegar Óskar Örn Hauksson prjónaði sig í gegnum vörn gestanna og skoraði af miklu öryggi. KR-ingar bættu loks við öðru markinu á 37. mínútu þegar Kjartan Henry Finnbogason skoraði í autt mark Skagamanna eftir fyrirgjöf frá Gary Martin, fyrrum leikmanni ÍA. Skagamenn mættu ferskari til leiks í seinni hálfleik og sköpuðu sér ágætis marktækifæri. Því miður náðu þeir ekki að nýta sér þau og því urðu úrslit leiksins 2-0.