Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
02. ágúst. 2012 04:01

Landsbjörg segir upp starfsmönnum sínum á Gufuskálum

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur sagt upp starfsmönnum sínum í almannavarna- og björgunarskólanum á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Félagið hefur haldið námskeið og æfingar á svæðinu um árabil. Nú eru líkur til að félagið hætti starfsemi þar og er fjárskorti kennt um. Hörður Már Harðarson, stjórnarformaður Landsbjargar, segir lokunina vera lið í nauðsynlegri hagræðingu félagsins en þó sé verið að leita leiða til að halda starfseminni gangandi. „Félagið er að leita að öllum hugsanlegum leiðum til að takast á við þrengingar í rekstri. Það er ekkert öðruvísi með okkur en aðra, við þurfum að hagræða. Þetta er mjög erfitt, en það er alltaf erfitt að spara hvort sem það er á heimilum eða í rekstri. Okkar helsta markmið er að sinna björgunarstörfum auk slysavarna- og fræðslustarfs og við höfum verið að gera það síðan 1928. Við erum að reyna að leita leiða til að halda starfsemi á Gufuskálum áfram og höfum leitað að aðilum til að koma að rekstrinum með okkur auk þess að standa í samningaviðræðum við hið opinbera. Þetta er liður í hagræðingu hjá okkur þar sem við fórum yfir félagið og gerðum ítarlega greiningu á áherslum okkar. Við stofnuðum einnig tvær nefndir sem fóru yfir stöðuna, ásamt umræðum á tveimur stórum fundum þar sem fulltrúar frá öllum einingum félagsins tóku þátt og fóru yfir mál og var þetta niðurstaðan,“ segir Hörður Már.

 

 

 

Þyrfti að markaðssetja Gufuskála betur

Davíð Óli Axelsson, formaður björgunarsveitarinnar Lífsbjargar í Snæfellsbæ, segist ekki vera sammála því að nauðsynlegt sé að loka svæðinu á Gufuskálum. Hann segir að frekar þyrfti að reyna að markaðssetja svæðið betur. „Það hefur verið mjög lítil notkun á svæðinu. Þetta er dýr rekstur og stjórnarmenn Landsbjargar telja hann ekki vera réttlætanlegan. Við hérna á svæðinu höfum verið algerlega ósammála því og viljum reyna að markaðssetja Gufuskála betur. Stjórnin segir að það hafi verið reynt, en við teljum það ekki fullreynt. Það er nóg að keyra þarna framhjá til að sjá að svæðið hefur upp á að bjóða allt sem þarf til æfinga og þjálfunar björgunarsveitafólks. Það voru stofnaðar tvær nefndir um þetta mál. Það var sama hvað við höfðum að segja, það var ekki hlustað á raddir okkar enda viljum við meina að lokunin hafi verið í undirbúningi lengi. Á sínum tíma fékk Landsbjörg svæðið endurgjaldslaust og reyndar töluvert fjármagn með á hverju ári frá hinu opinbera. Nú er verið að gera þá vinnu og peninga sem lagðir hafa verið í að byggja upp svæðið að engu. Okkur finnst þetta vera ákaflega dapurlegt mál og sérstaklega það viljaleysi sem virðist ríkja hjá þeim sem stjórna félaginu um að horfa á aðrar lausnir frekar en að leggja þjálfunarbúðirnar niður. Auðvitað höfum við skilning á að það þurfi að spara og hagræða, en við teljum að félagið sé að gera mikil óafturkræf mistök með að henda frá sér þessari aðstöðu þó að það sé að ganga í gegnum tímabundnar þrengingar,“ segir Davíð Óli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is