Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. ágúst. 2012 12:01

Norræn prjónaráðstefna haldin í Borgarnesi í vikunni

„Við höfum tekið Hjálmaklett í Borgarnesi á leigu í vikutíma og þangað koma um 160 konur á þessa norrænu prjónaráðstefnu sem verður frá 6. til 11. ágúst,“ segir Ásdís Birgisdóttir útgefandi tímaritsins Lopa og bands. Ásdís skipuleggur prjónaráðstefnu Gavstrik, sem eru dönsk grasrótarsamtök áhuga- og fagfólks um prjónaskap. „Þetta er byggt upp á kennslu á námskeiðum og fyrirlestrum. Auk þess er prjónakaffi, sem opið er öllum, og markaður þátttakenda. Það eru eingöngu konur sem taka þátt en nokkrir karlar koma að fyrirlestrum og kennslu.“ Áslaug segir þátttakendur víða að úr heiminum. „Flestir þátttakendur koma af Norðurlöndum en svo eru konur frá öðrum Evrópulöndum, Kanada og meira að segja frá Japan og Kóreu en það er mikill áhugi fyrir norrænni prjónahefð í þeim löndum. Þátttakendur gista á gististöðum í Borgarbyggð og við leggjum áherslu á að kynna fyrir þeim svæðið. Förum t.d. í dagsferð upp í Borgarfjörð og komum þá m.a. við í Reykholti. Þessi ráðstefna er haldin árlega og til skiptis í litlum bæ eða þorpi á Norðurlöndunum. Við völdum Borgarnes í þetta skipti, þar sem rík handverkshefð er í Borgarfirði og margt af okkar þekktara handverks- og listhandverksfólki landsins býr þar,“ segir Ásdís.

 

 

Fjölbreytni í fyrirrúmi

Yfir 15 námskeið verða í boði og tíu fyrirlestra af margvíslegu tagi. Jafnframt er boðið upp á námskeið í hefðbundinni tækni og handverksþekkingu sem skapandi og frumlegum verkefnum og útfærslum. T.d. eru námskeið um jurtalitun, rósleppaprjón, heklað skart, endurvinnslu prjónless, skapandi spuna og fleira. Á fyrirlestrum verður m.a. fjallað um íslenska Kashmir verkefnið þar sem verður kynnt þróunarverkefni um verndun íslenska geitastofnsins og nýtingu á afurðum geitarinnar. Fyrirlestur og námskeið verða um jurtalitun þar sem handverkskonan og plöntulíffræðingurinn Guðrún Bjarnadóttir fjallar um jurtalitun og litunarhefðina hér á landi. Verkefnið Kindur.is, sem er vefur fyrirtækisins Eigið fé, sem er á Snæfellsnesi verður kynnt í fyrirlestri og margt fleira. Þá mun Vivian Höxbro, sem er danskur prjónahönnuður og hefur gefið út margar bækur, segja frá ferli sínum og störfum í fyrirlestri undir yfirskriftinni „Líf mitt og prjón“. Vivian heldur líka fáein námskeið, m.a. í svokölluðu Dómínóprjóni, en þá kúnst hefur hún gert að vörumerki sínu.

 

Almenningur getur fylgst með

Ásdís segir almenning geta fylgst með og tekið þátt í ýmsu. „Heklað útilistaverk verður unnið meðan á ráðstefnunni stendur en það gerir Tinna Þóra Þorvaldsdóttir. Prjónakaffi er fimmtudagskvöld 9. ágúst í Hjálmakletti. Boðið verður upp á ókeypis aðgang að fyrirlestri Vivian Höxbro og ég hvet prjónaáhugafólk til að taka þátt í prjónakaffinu með þátttakendum á ráðstefnunni. Svo verður markaður eftir kl. 15 föstudaginn 10. ágúst í Hjálmakletti. Þar sýna þátttakendur og selja ýmislegt áhugavert en margar sem sækja þessa ráðstefnu eru útgefendur eða listhandverksmenn að starfi og því óhætt að segja að mjög margt fallegt og eigulegt verður í boði,“ segir Ásdís.

 

Margt fleira er í boði og segir Ásdís ljóst að fag- og áhugafólk um prjón, hannyrðir og handverk ætti að finna eitthvað við sitt hæfi. Íslenskum þátttakendum gefst einnig kostur á að skrá sig á stök námskeið og námskeiðsdaga. Einnig er aðgangur að öllum fyrirlestrum gegn vægu gjaldi. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Lopa og bands: www.lopiogband.is og Lopa og band á Facebook.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is