16. ágúst. 2012 11:25
Trúlega eru margir sammála um að starf kennarans sé eitt það allra mikilvægasta í þjóðfélaginu, ekki síst þeirra kennara sem fylgja kynslóðunum fram á unglingsárin. Síðasta vor var meðal þriggja starfsmanna sem lét að störfum við Brekkubæjarskóla á Akranesi, Ingileif Daníelsdóttir kennari á Ytra-Hólmi. Ingileif byrjaði að kenna í Brekkubæjarskóla haustið 1969, en þá hét skólinn reyndar Barnaskóli Akraness, enda eini barnaskólinn í bænum. Ingileif kenndi síðan við skólann allt til síðasta vors, utan sjö ára sem hún tók sér leyfi til að eiga börn og fylgja þeim fyrstu skrefin í lífinu. Ingileif var ánægð að loknu þessu ævistarfi sínu þegar blaðamaður Skessuhorns ræddi við hana á dögunum.
„Þegar ég lít yfir farinn veg kemur í hugann, er hægt að hugsa sér nokkuð betra, hvað er skemmtilegra og hvað er meira gefandi? Það er fátt skemmtilegra en þegar fyrrum nemendur mínir gefa sig á tal við mig til að spjalla um daginn og veginn og segja mér af sínum högum,” segir Ingileif. Hún segir að vissulega hafi gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar síðustu áratugina haft mikil áhrif á störf kennarans. „Nemendurnir eru mun frakkari og hömlulausari en áður. Þótt í langflestum tilfellum séu þeir hæfileikaríkir og meðfærilegir einstaklingar, þarf ekki nema einn til að raska jafnvæginu. Maður veit í raun ekkert hvað næsti dagur ber í skauti. Þótt búið sé að skipuleggja kennslu næsta dags getur hún raskast af þessum sökum.”
Sjá ítarlegt viðtal við Ingileif í Skessuhorni vikunnar.