30. ágúst. 2012 12:19
Íslenskir kvikmyndagerðar-menn vinna nú að tökum á kvikmyndinni Hrossi í uppsveitum Borgarfjarðar. Tökur hófust 13. ágúst sl. og munu standa yfir til 8. september. Tekið er aðallega upp á þremur bæjum í Hvítársíðu þar sem aðalsöguhetjurnar í myndinni búa. Bæirnir eru Hvammur, Hallkelsstaðir, Fróðastaðir og Fljótstunga. Einnig eru senur teknar upp á Kaldadal og að Hraunsási í Hálsasveit. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Benedikt Erlingsson en framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson. Í samtali við Skessuhorn sagði Benedikt Erlingsson að í myndinni væru hross í forgrunni. „Sagan sem myndin greinir frá er nokkurskonar innansveitarkrónika þar sem sögupersónurnar, sem búa á mörkum sveitarinnar og hálendisins, eru í stöðugri glímu við náttúruöflin, bæði innri og ytri," segir Benedikt.
Síðasta tökudag myndarinnar verður sett upp stóðrétt í Þverárrétt og vill Benedikt hvetja alla Borgfirðinga til að fjölmenna í réttina. Hvetur hann einnig hestafólk til að taka hross sín með sér. „Myndin gerist á seinni hluta níunda áratugarins. Því hvet ég fólk til að kanna hvað leynist í geymslunni og mæta í peysum og fatnaði frá þeim tíma. Annars er það bara lopapeysan,“ segir Benedikt.
„Planið er að reka stóðið einhvern spöl og draga svo í dilka. Síðan í lok dags munum við vera með hrossauppboð og partí fyrir þátttakendur um kvöldið í félagsheimilinu við Þverárrétt með rándýrum skemmtikröftum að sunnan. Ef fólk vill selja hross er þetta upplagt tækifæri til þess að koma því í góðar hendur,“ segir Benedikt að endingu.
Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru hvattir til að senda póst á hross.adstod@gmail.com en hringja má í Birtu í síma 772-7662 til að nálgast frekari upplýsingar.
Þess má geta að nú fer upptaka af töku úr myndinni eins og eldur í sinu um netheima, þar sem Kjartan Ragnarsson leikari fellur af baki í tökum í Fljótstungu. Ekki varð Kjartani meint af fallinu. Sjá má myndbandið á Þúskjá (YouTube) hér.
Áætlað er að frumsýning kvikmyndarinnar verði haustið 2013.
Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.