01. desember. 2012 11:01
Telma Guðrún Jónsdóttir, 11 ára Akurnesingur og nemandi í 6. bekk í Grundaskóla, gerði sér lítið fyrir og sigraði í kökukeppni Disneyklúbbsins á Íslandi sem fram fór í Smáralindinni í Kópavogi laugardaginn 17. nóvember sl. Þema keppninnar var teiknimyndir Disney og bakaði Telma fagurlega skreytta köku í líki sjálfrar Öskubusku en hún sigraði í barnaflokki. Það er Disney klúbburinn á Íslandi ásamt styrktaraðilum sem stendur að keppninni sem haldin var í fyrsta skipti í ár en reiknað er með að halda hana aftur að ári. Telma fékk að launum ársáskrift af Andrési Önd, allar Disney uppskriftarbækur sem út hafa komið og þriggja mánaða áskrift af Morgunblaðinu. Skessuhorn ræddi við Telmu um árangurinn sem hún var að vonum ánægð með enda lagði hún mikið á sig við kökugerðina.
Reyndi á þolinmæðina
Telma býr ásamt fjölskyldu sinni að Einhamri, rétt fyrir utan Akranes. Foreldrar hennar eru María Guðrún Sveinsdóttir og Jón Páll Pálsson. Í samtali við Skessuhorn sagði Telma að það hafi verið bæði erfitt en skemmtilegt að baka Öskubuskukökuna. Kakan er í grunninn brúnterta en kremið er mjúkseigur sykurmassi. „Það tók einn dag að baka kökuna og fór langmestur tíminn í að klæða hana í sykurmassann. Öskubuska sjálf er barbídúkka en kjóllinn, skartgripir og annað sykurmassi,“ segir Telma. Hún segir að það hafi reynt verulega á þolinmæðina að móta kjól öskubusku þannig að hann liti út sem eðlilegastur og sömuleiðis að tryggja það að Öskubuska væri bein í baki. „Dúkkan var sífellt að halla þannig að það fór smá tími í að reyna rétta hana við. Þá reyndi á þolinmæðina og varð ég dálítið pirruð. Ég náði hins vegar að festa hana með auka sykurmassa en til að fela það setti ég skreytingar á kjólinn,“ bætir Telma við en til að skreyta kjól Öskubusku notaði hún hnífa og form til að skera mynstur.
Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar