07. desember. 2012 11:51
Íþróttahúsið við Vesturgötu á Akranesi var þéttskipað í gærmorgun þegar þar fór fram jólamorgunstundin. Gólfið var þéttskipað börnum og áhorfendastúkurnar foreldrum og velunnurum skólans. Nemendur voru búnir að undirbúa morgunstundina vel og var hópur nemenda að koma upp sviðinu og búnaði kvöldið áður. Kynningar voru í höndum nemenda og hvert atriðið rak annað, flest í söng og tónlist, en húsbandið er skipað nemendum skólans. Það voru reyndar yngstu nemendur skólans, fyrstu bekkingar, sem riðu á vaðið með því að syngja þuluna gamalkunnu, Tunglið, tunglið taktu mig, sem þeir hafa verið að vinna þemaverkefni um að undanförnu.
Þemalitir morgunstundarinnar að þessu sinni voru rauður og grænn og þeir litir áberandi á morgunstundinni. Stundin hófst með ávarpi Arnbjargar Stefánsdóttur skólastjóra sem sagði sérstaklega ánægjulegt að sjá allan þann fjölda gesta sem mættur var til að taka þátt í viðburðinum sem boðaði skýrt að jólin væru á næsta leiti. Því næst komu upp fulltrúar eldri árganga skólans vegna styrktarverkefnisins, „Fram og til baka,“ sem komið var á fót fyrir nokkrum árum. Bjarni Vésteinsson afhenti Arnbjörgu skólastjóri umslag með styrk frá árgangi 1945 í Barnaskóla Akraness, forvera Brekkubæjarskóla. Bjarni afhenti síðan keflið til Ingileifar Daníelsdóttur sem mætt var fyrir hönd 1944 árgangsins. Ingileif sagði sín bekkjarsystkini ákaflega glöð með að taka að sér það verkefni nú að styrkja við starf gamla skólans síns. Þessi árgangur hefði gjarnan verið kallaður lýðveldisbörnin. Ingileif sagði einkar skemmtilegt og merkilegt að tilheyra fyrsta árgangi lýðveldisins, sem heyrði undir íslenska þjóðhöfðingja en ekki danska eða norska.
Fleiri myndir frá jólamorgunstund verða í næsta Skessuhorni.