11. desember. 2012 05:18
Á fundi bæjarstjórnar Akraness nú síðdegis í dag var samþykkt einróma að ganga til samninga við Regínu Ásvaldsdóttur um að taka við starfi bæjarstjóra á Akranesi. Kemur hún til starfa um miðjan janúar og flyst þá á Akranes ásamt eiginmanni sínum Birgi Pálssyni sem gegnir starfi deildarstjóra hjá Advania. Þau eiga þrjár uppkomnar dætur. Regína verður jafnframt fyrsta konan til að gegna starfi bæjarstjóra í 70 ára kaupstaðartíð Akraness. Regína Ásvaldsdóttir er félagsráðgjafi að mennt með framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu og meistaragráðu í breytingastjórnun og nýsköpun frá viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Aberdeen í Skotlandi. Hún er framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Regína hefur margra ára reynslu sem stjórnandi á vettvangi sveitarstjórnarmála og hefur stýrt umfangsmiklum stjórnkerfisbreytingum á vegum Reykjavíkurborgar.
Regína var skrifstofustjóri og síðar staðgengill borgarstjórans í Reykjavík árin 2008 til 2011, sviðsstjóri þjónustu- og rekstrarsviðs Reykjavíkurborgar 2005 til 2007, verkefna- og breytingastjóri á þróunarsviði Reykjavíkurborgar 2002 til 2005, framkvæmdastjóri Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar í Grafarvogi 1997 til 2002 og félagsmálastjóri á Sauðárkróki 1995 til 1997. Regína er stundakennari í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.