Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. desember. 2012 10:35

Ný stefna UMSB og Borgarbyggðar að líta dagsins ljós

Stjórn UMSB samþykkti drög að nýrri stefnu sambandsins á fundi sínum í fyrrakvöld og um leið nýjan samning við Borgarbyggð um aukið samstarf á sviði íþróttamála sem grundvallast á stefnu UMSB. Sveitarstjórn Borgarbyggðar hafði áður samþykkt samninginn á fundi sínum á fimmtudaginn í síðustu viku. Í nýrri stefnu kemur fram að hlutverk UMSB verði m.a. að sjá aðildarfélögum sínum fyrir þjónustu á sviði íþrótta- og félagsstarfs, hafa faglega forystu í því og stuðla að aukinni menntun, þekkingu og hæfni innan hreyfingarinnar, vera málsvari gagnvart sveitarfélögunum á starfssvæðinu, UMFÍ, ÍSÍ og öðrum og stuðla að eflingu félagsstarfs meðal aðildarfélaga sinna. UMSB og Borgarbyggð hafa unnið sameiginlega að stefnumótun í íþróttamálum undanfarna mánuði og eru drögin afrakstur þeirrar vinnu.

Þjónustumiðstöð stofnuð

Meðal verkefna er stofnun nýrrar þjónustumiðstöðvar sem verður miðpunktur alls íþrótta- og félagsstarfs UMSB. Verkefni hennar verða af fjölbreyttum toga og má helst nefna að miðstöðin kemur til með að annast öll samskipti íþróttahreyfingarinnar og Borgarbyggðar. Einnig verður henni falið að fylgjast með að starf aðildarfélaga UMSB byggist á faglegum forsendum, að fylgjast með og leiðbeina aðildarfélögum um fjárhagslegan rekstur og að hafa forystu um að umræða um málefni íþróttahreyfingarinnar fari fram og á hvaða hátt megi efla hana. Þjónustumiðstöðin og stjórn UMSB mun einnig sinna verkefnum sem áður voru á forræði Borgarbyggðar t.d. kjör íþróttamanns Borgarbyggðar, skiptingu tíma í íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins og umsjón íþróttavalla. Gert er ráð fyrir að undirbúningur að stofnun þjónustumiðstöðvarinnar far fram á næsta ári og að hún taki til starfa í síðasta lagi 1. janúar 2014. Í henni starfi framkvæmdastjóri og fjármálastjóri sem vinni náið með aðildarfélögum. Staða framkvæmdastjóra verður auglýst á fyrstu mánuðum næsta árs og er stefnt að ráðið verði í stöðuna fyrir 1. júní. Hlutverk framkvæmdastjóra verður m.a. veita þjónustumiðstöðinni forstöðu og framkvæma verkefni sem henni er falið.

 

Borgarbyggð styrkir

Að auki verði fagmennska í starfsemi sambandsins og aðildarfélaga aukin, t.d. með að fyrir 2015 verði öll aðildarfélög UMSB búin að fá viðurkenningu ÍSÍ sem fyrirmyndarfélag. Stefnt er að því að afreksmannasjóður sambandsins verði efldur, að komið verði á fót íþróttaskóla fyrir börn á aldrinum 6-10. ára og að tækifærum til að stunda íþrótta- og félagsstarf fjölgi í dreifbýli sem þéttbýli. Samkvæmt samningnum mun Borgarbyggð leggja fé til UMSB vegna framkvæmd þessara verkefna og fleiri, annars vegar í gegnum þjónustustyrki til að standa straum af rekstri þjónustumiðstöðvarinnar og verkefna hennar og starfsstyrki sem renna skal til aðildarfélaga og deilda þeirra að nokkrum faglegum skilyrðum settum.

 

Mikil ánægja með stefnumótun

Sigurður Guðmundsson sambandsstjóri UMSB sagðist í samtali við Skessuhorn vera mjög ánægður með stefnumótunina og samninginn við Borgarbyggð sem kemur til með að efla mjög íþróttalíf í Borgarbyggð. „Ég held að þetta komi til með að styrkja íþróttastarf innan vébanda UMSB verulega. Með samningnum við Borgarbyggð eru samskipti íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélagsins skýrð og ábyrgð einstakra verkefna sett í fastar skorður. Samningurinn við Borgarbyggð gerir okkur kleift að efla enn frekar íþróttaiðkun og ungmennafélagsstarf í héraðinu,“ segir Sigurður. Hann segir marga hafa komið að stefnumótuninni, fulltrúar frá öllum 23 aðildarfélögum, um 70 manns. „Ný stefna UMSB í íþróttamálum og samningurinn við Borgarbyggð verður kynnt á formannafundi UMSB í byrjun janúar, á íbúafundi í lok janúar og að endingu mun sambandsþing UMSB taka málið til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í mars. Þá verður hafist handa við að hrinda samningnum og nýrri stefnu í framkvæmd.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is