Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. desember. 2012 01:01

„Ef mér leiddist myndi ég leita félagsskapar“

Í Leirársveitinni skammt ofan Grunnafjarðar kúrir snotur lítill bær með lágreistum bæjarhúsum, þannig að ekki ber mikið á þegar ekið er þarna um. Þetta er bærinn Lækur. Það fer heldur ekki mikið fyrir henni Vilborgu Kristófersdóttur sem þar býr, enda orðin 89 ára gömul og hefur hægt um sig núorðið. Blaðamaður Skessuhorns leit í heimsókn til Vilborgar núna á jólaföstunni á einum þessum dögum þegar stillan í veðrinu var hvað mest. Einstaklega snyrtilegt er um að litast þegar ekið er heim að Læk, rétt svona eins og hlaðið sé nýsópað. Aðventuljósin voru komin í gluggana og Vilborg kom kvik á fæti til dyranna þegar bankað var. Eftir að hafa heilsað Vilborgu færir blaðamaður strax í tal við hana að þetta sé nú meiri hetjuskapurinn hjá manneskju á þessum aldri að búa ein úti í sveit, en hún gerir ekki mikið úr því. „Mér finnst nú mesti munurinn að hafa ennþá þessa heilsu að geta hugsað um mig sjálf. Það er aldrei hægt að fullþakka það, heilsan er það dýrmætasta hjá hverri manneskju,“ segir Vilborg.

Missti föður sinn tveggja ára

Vilborg fæddist á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði 30. júlí 1923. Faðir hennar Kristófer Guðbrandsson var Borgfirðingur en móðir hennar Salvör Jörundardóttir frá Birnhöfða í Innri-Akraneshreppi, sem var leigujörð frá Ytra-Hólmi. „Foreldrar mínir hófu búskap á Kleppjárnsreykjum þremur árum áður en ég fæddist. Móðir mín var ljósmóðir og sinnti í því starfi bæði Reykholtsdalnum og Hálsasveitinni. Rúmum fjórum mánuðum áður en ég fæddist veiktist faðir minn af lömunarveikinni. Hann komst aldrei á fætur eftir það. Langtímum saman lá hann á Landakotsspítala en var heima vorið og sumarið áður en hann dó. Þá kom hann með skipi frá Reykjavík til Borgarness og var fluttur þaðan á kviktrjám eða sleða upp að Kleppjárnsreykjum. Pabbi dó 14. september 1923 þegar ég var rétt orðin tveggja ára gömul.

 

Á þessum tíma voru engar tryggingar eða sjúkrabætur, þannig að hjúkrunar- og sjúkrakostnaður var foreldrum mínum dýr. Þau neyddust til að selja jörðina og hún var seld Borgarfjarðarlæknishéraði fyrir læknisbústað og sjúkraskýli. Það var einmitt byrjað á þeim byggingum sumarið sem faðir minn lá banaleguna heima. Jón Bjarnason var þá héraðslæknir í Borgarfirði og hann flutti í læknisbústaðinn nýbyggðan sem var reisuleg bygging á þess tíma mælikvarða, kjallari, tvær hæðir og ris. Móðir mín fékk inni með mig í einu herbergi í bústaðnum sem hún leigði. Jón Bjarnason gerði ýmsar skurðaðgerðir í sjúkraskýlinu og móðir mín fékk ráðningu sem aðstoðarmanneskja hans við þær með ljósmóðurstarfinu.“

 

Sjá nánar í Jólablaði Skessuhorns sem nú er komið út.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is