19. desember. 2012 12:38
Þrjú hundruð tonna viðbótarkvóti á síld, sem úthlutað var nýlega til lagnetaveiða smábáta við strendur landsins, verður ekki veiddur fyrr en í byrjun nýs árs. Síldin hefur sem kunnugt er einkum haldið sig í Breiðafirði. Það er vegna þess að vinnslur í Stykkishólmi, Rifi og í Þorlákshöfn sem bátarnir hafa lagt upp hjá taka ekki við síld til vinnslu núna fyrir jólin og milli hátíða. Páll Aðalsteinsson útgerðarmaður í Stykkishólmi segir að útgerðir 55 báta hefðu sótt um kvóta og það hefði því aðeins fimm tonn komið í hlut hvers báts. Hann segir að reglur um leigu úr pottunum hjá ríkinu væru þess eðlis að kvótinn væri framseljanlegur. Þetta hafi orðið til þess að menn væru að fá aðra til að sækja um fyrir sig. Þannig vissi hann t.d. um útgerð sem hafi fengið úthlutað 25 tonnum til sín, en fengið 55 tonn frá öðrum, þannig að veiðiheimildir þessa útgerðar væru orðnar 80 tonn. „Þarna finnst okkur að verið sé að misnota kerfið og þessu verði breytt fyrir næstu vertíð, verði eitthvað næst í þessu, því landslagið er náttúrlega alltaf að breytast í pólitíkinni,“ sagði Páll.