Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
31. desember. 2012 12:15

Fréttatilkynning frá Ríkislögreglustjóra vegna óveðurs og fleira

„Vegna hættustigs almannavarna sem lýst var yfir vegna óveðurs þann 28. desember í umdæmum lögreglustjóranna á Selfossi, Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarfirði og Dölum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík. Í samráði við lögreglustjórana á Selfossi, Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi ákvað ríkislögreglustjóri að aflétta hættustigi almannavarna í fyrrgreindum umdæmum í gær, sunnudaginn 30.12.2012.  Óveðrið hafði lítil áhrif á þessum svæðum,“ segir í tilkynningu.

 

Hér á eftir birtast ýmsar upplýsingar sem ríkislögreglustjóri vildi koma á framfæri til almennings klukkan 12:00 í dag:

 

 

 

 

 

Veður

"Veðurhorfur næsta sólarhringinn. Norðan 13-23 m/s, hvassast við N-ströndina. Snjókoma N-til á landinu, en skýjað með köflum S-lands. Fer að draga úr vindi og úrkomu síðdegis. Norðan 8-13 m/s seint í kvöld. Él á NA- og A-landi, lítilsháttar él NV-lands, en bjartviðri á S- og SV-landi. Víða hæglætisveður á morgun og bjart. Frost 0 til 5 stig, en kaldara inn til landsins á morgun.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan 8-13 og snjókoma N- og A-lands í fyrstu. Síðan hægari breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið á N-landi. Hlýnandi, hiti 1 til 5 stig síðdegis en í kringum frostmark norðaustantil.

Á fimmtudag: Suðlæg átt, víða 8-13 m/s og skúrir eða slydduél, en þurrt og bjart NA- og A-lands. Rigning eða slydda á S- og V-landi síðdegis. Hiti 0 til 5 stig.

Á föstudag og laugardag: Suðlæg átt og vætusamt, en úrkomulítið á norðaustanverðu landinu. Fremur hlýtt.

Á sunnudag: Útlit fyrir sunnanátt með rigningu eða slyddu S- og V-lands.

Athugasemdir snjóflóðavaktar: Ofsaveður sem geisað hefur á Vestfjörðum er gengið niður og veður verður orðið skaplegt síðdegis. Á Norðurlandi gengur veðrið hægar niður og þar er spáð hríðarveðri til kvölds. Ferðalangar þurfa að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið.

Skrifað af vakthafandi sérfræðingi 31. des. 08:14.

 

Færð

Enn er ófært á milli flestra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum en verið er að moka veginn til Suðureyrar. Fært mun vera frá Brjánslæk um Kleifaheiði um Patreksfjörð til Bíldudals en á þeim leiðum er snjóþekja. Þá er orðið fært milli Þingeyrar og Ísafjarðar og Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Flateyrarvegur er enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Ófært er um Djúp og á Barðaströnd frá Kollafirði að Brjánslæk. Þá er ófært frá botni Steingrímsfjarðar og norður um Strandir. Vegagerðin mun meta ástand annarra vega á Vestfjörðum fyrripart dags.

Nánir upplýsingar í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is.

 

Flug

Flug er á áætlun til Akureyrar og Egilsstaða en verið er að athuga möguleika á flugi til Ísafjarðar. Flugi til Húsavíkur hefur verið aflýst en flogið var til Bíldudals í morgun.

 

Rafmagn

Rafmagn er framleitt með varaaflsvélum fyrir Ólafsvík, Hellissand og Rif. Við skoðun í gær á Ólafsvíkurlínu, sem liggur frá Vegamótum að Ólafsvík, komu í ljós meiri skemmdir en búist var við. Unnið hefur verið að því að taka saman efni og mannskap til viðgerðar og eru viðgerðir þegar hafnar. Búist er við því að það geti tekið nokkra sólarhringa að klára viðgerðina. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að flytja auka varaafl inn til Ólafsvíkur til að auka afhendingaröryggi og anna álagi. Fólk er beðið um að spara rafmagn í Ólafsvík.

Klukkan 7 í morgun lauk bráðabirgðaviðgerð á línu á Skarðsströnd og komst rafmagn þá á í Saurbæ og á Skarðsströnd. Enn er rafmagnslaust á Fellsströnd frá Víghólsstöðum að Klofningi, viðgerð mun standa yfir.

Truflanir hafa verið á Staðarsveitarlínu í gærkvöldi og í nótt.

Rafmagn komst á sveitina í Önundarfirði síðdegis í gær. Um leið komst rafmagn á mikilvæg fjarskiptamannvirki í firðinum. Varaaflsvélar eru enn í gangi í Bolungarvík og sjá þær Hnífsdal einnig fyrir rafmagni. Varaaflsvélar eru líka enn í gangi í Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og Bíldudal.

Ef veður og snjóalög leyfa verður í dag farið að leita að bilunum á línum Orkubúsins og Landsnets. Nú undir hádegi lagði þyrla Landhelgisgæslunnar af stað í flug með starfsmenn Landsnet vestur á firði til að leita að bilunum á raflínum. Ef ekki verður unnt að gera við línur og þannig tengjast Mjólkárvirkjun er fyrirsjáanlegt að grípa verði til frekari skammtana eftir hádegi í dag, gamlársdag.

Búið er að gera við Barðastrandarlínu og eru allir á sunnaverðum Vestfjörðum með rafmagn frá díselrafstöðvum og vatnsaflsvirkjunum.

Enn er rafmagnslaust í Árneshreppi og reyna á viðgerð á línum í dag ef veður og snjóalög leyfa. Bilun var á Bjarnarfjarðarlínu en búist var við að viðgerð kláraðist í gærkvöldi. Á Hólmavík eru allir notendur með rafmagn frá díselrafstöðvum og Þverárvirkjun.

Í gærkvöldi var rafmagnslaust í Ísafjarðardjúpi, fyrir vestan Reykjanes, og fór viðgerðarflokkur að reyna að koma rafmagni á þar.

Á þeim stöðum þar sem enn er keyrt á varaafli er fólk beðið að spara rafmagn eins og hægt er. Því duglegra sem fólk er að spara rafmagn þeim mun minni líkur eru á að þurfi að grípa til skömmtunar .

Um hádegi mun Orkubú Vestfjarða keyra niður rafmagn til fyrirtækja og setja afhendingu rafmagns til heimila í forgang. Orkubúið stefnir að því að setja upplýsingar um skömmtun inn á heimasíðuna www.ov.is eftir kl. 10. Þá stefnir Orkubúið á að þau heimili sem missi rafmagn séu ekki rafmagnslaus meira en eina og hálfa klukkustund í einu.

 

Fjarskipti

Enn eru truflanir í GSM kerfinu vegna rafmagnstruflana og eru nokkrir sendar enn úti á Vestfjörðum. Ástandið skánaði til muna í gær þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með starfsmenn Símans, Vodafone og Öryggisfjarskipta á nokkar staði á Vestfjörðum í þeim tilgangi að koma á fjarskiptasambandi sem hafði rofnað í rafmagnsleysinu. Óhætt er að segja að ferðin hafi heppnast vel því margir farsímasendar komust í kjölfarið í samband auk þess sem TETRA öryggisfjarskiptakerfið er nú komið í lag aftur.

 

Miðlun upplýsinga

Vefsíða almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur verið notuð til að miðla upplýsingum til almennings auk þess sem facebook síða deildarinnar hefur verið nýtt vel og dyggilega. Almenningur hefur fylgst með upplýsingum sem birtar hafa verið þar og jafnframt komið ábendingum til almannavarnadeildar eftir þeirri leið. Þessi samskipti hafa hjálpað til við að ná yfirsýn yfir aðstæður víða um land.

Prýðilegt samstarf hefur verið við fjölmiðla og vill ríkislögreglustjóri þakka fjölmiðlum fyrir hversu ötullega þeir hafa gengið fram við að miðla upplýsingum til fólks um ástand mála.

 

Viðbragðsaðilar

Allir viðbragðsaðilar, þar með taldar björgunarsveitirnar, hafa unnið hörðum höndum við að bjarga verðmætum, sinna viðgerðavinnu og öðrum aðkallandi verkefnum meðan á óveðrinu hefur staðið."

 

Ríkislögreglustjóri, almannavarnadeild

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is