Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. janúar. 2013 05:07

Ríkisstofnanir firra sig skyldu til viðbragða í Kolgrafafirði

Í lok síðustu viku fóru fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun og Umhverfisstofnun á vettvang í Kolgrafafjörð til að skoða aðstæður í firðinum eftir síldardauðann sem þar varð um miðjan desember. Ekki eru komnar formlegar niðurstöður úr leiðangrinum, en samkvæmt heimildum Skessuhorns fundu starfsmenn Hafró mikið af lifandi síld í firðinum og súrefnisstigið var enn lágt, en þó ekki jafn lágt og áður. Selta var eðlileg í firðinum og hiti einnig og ekki fannst nýdauð síld. Fulltrúum Hafró reiknast til að um 30.000 tonn af dauðri síld séu í Kolgrafafirði.  Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri Grundarfjarðar, segir að Umhverfisstofnun haldi áfram að vísa til þess að mengunin við strendur fjarðarins sé eins og hver annar hvalreki og því á ábyrgð landeigenda. „Því vísum við alfarið á bug. Hvalreki þótti áður fyrr mikill happafengur en þetta ástand er það ekki. Við bendum á reglugerð um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda og þar segir að Umhverfisstofnun skuli gera ráðstafanir við slíkri mengun og þetta er bráðamengun,“ segir Björn.

Í reglugerð nr. 1010/2012 um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda og snýr að því að skilgreina ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við bráðamengun, segir að bráðamengun sé mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða. Ennfremur segir í reglugerðinni: „Komi til bráðamengunar hafs eða stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi.“ Í reglugerðinni er mengun skilgreind á þessa vegu: „Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.“

 

Björn Steinar segir það ekki fara á milli mála að ábyrgð á aðgerðum eða hreinsunarstarfi liggi hjá ríkinu. „Við bregðumst auðvitað við eins og við getum en ábyrgðin er á höndum ríkisvaldsins. Þeir sem ég ræddi við hjá Umhverfisstofnun telja sig hvorki hafa fjármagn né skyldu til að bregðast við að öðru leyti en að veita upplýsingar. Við vísum því einnig á bug. Ég þekki vel til fjármagnsskorts stofnana en þær geta ekki vísað sig frá lögbundinni ábyrgð. Í umræddri reglugerð segir að UST geti haft samband við Heilbrigðiseftirlitið og fengið það til að meta mengunina en mér skilst að svo hafi ekki verið gert. Í nýlegri bókun frá bæjarstjórn Grundarfjarðar lýsum við yfir áhyggjum yfir seinagangi á aðgerðum vegna síldarinnar sem er að rotna í Kolgrafafirði og kölluðum eftir viðbragðsáætlun sem fyrst. Umhverfisstofnun er ekki með slíka áætlun,“ segir Björn.

Ekki náðist í Umhverfisstofnun vegna vinnslu fréttarinnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is