Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. janúar. 2013 12:05

Stefnt að opnun nýrrar sundlaugaraðstöðu í Ólafsvík um mitt sumar

Fyrirhugað er að framkvæmdum við útiaðstöðu við sundlaugina í Ólafsvík verði lokið þann 15. júlí næstkomandi. Ákveðið er í fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar að verja um 130 milljónum í viðhald og breytingar á sundlauginni af þeim 229 milljónum sem varið verður í nýframkvæmdir í sveitarfélaginu á árinu. Í samtali við Skessuhorn segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, að verkið verði boðið út í febrúar og að framkvæmdir við laugina geti því hafist fljótlega eftir páska. Heildarverkinu hefur verið skipt í tvo áfanga. Að sögn Kristins felst þessi fyrsti áfangi aðallega í því að útbúa útiaðstöðu við sundlaugina. Tveir heitir pottar verða steyptir auk vaðlauga og þá verða steyptir upp stoðveggir á útisvæði. Einnig verður skipt um síu- og dælubúnað í sundlauginni. Suðurhlið sundlaugarhússins verður opnuð að miklu leyti en þar verður gengið út á útisvæði og settur verður stór gluggi á austurhlið hússins til að auka birtu á innisvæði. „Innilaugin verður gerð að hálfgerðri útilaug hvað birtu varðar,“ segir Kristinn.

 

 

 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær farið verður í seinni áfanga verksins en sú framkvæmd snýr einkum að húsnæðinu sjálfu. Þá verður inngangur sundlaugarinnar færður frá vesturhlið hússins að norðurhlið, aðgengi hreyfihamlaðra bætt til muna, nýrri búningaaðstöðu komið fyrir auk þess sem starfsmannaaðstaða og afgreiðsla verður endurnýjuð. Þegar svæðið var teiknað var einnig gert ráð fyrir tveimur rennibrautum á útisvæði en það eru verkefni sem bíða betri tíma.

 

Framkvæmdum á núverandi sundlaugarhúsnæði lauk árið 1965 en laugina segir Kristinn vera barn síns tíma. „Þetta er fínasta laug en í dag gerir fólk að auki kröfur um útiaðstöðu, heita potta og vaðlaugar fyrir börnin. Bæjarstjórn hefur skynjað frá bæjarbúum mikinn vilja fyrir því að farið verði í þetta verkefni og því kalli verður nú svarað.“

Aðrar nýframkvæmdir sem farið verður í á árinu eða eru í gangi í Snæfellsbæ eru nýtt hafnarhús í Rifi, slitlag á Gilbakka í Ólafsvík, fjármunir til búnaðarkaupa í Grunnskóla Snæfellsbæjar og í leikskólum Snæfellsbæjar og útbúið verður nýtt rými til að geta tekið á móti fleiri börnum í leikskólanum í Ólafsvík því ljóst þykir að töluverð þörf verði á fleiri leikskólarýmum næstu þrjú árin í sveitarfélaginu. Frá síðasttöldu framkvæmdunum var greint frá nýlega í Skessuhorni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is