14. febrúar. 2013 09:31
EFI-2 málþroskaskimun er tæki fyrir leikskólakennara og sérkennara leikskólans til að meta málþroska barna á fjórða ári. Eldri útgáfan EFI var notuð af hjúkrunarfræðingum heilsugæslustöðva í u.þ.b. tíu ár við reglubundna skoðun 3ja og ½ árs barna til að meta hvort ástæða væri til vísa barni til frekari athugunar. Árið 2010 var aldursviðmiðum skoðana hjá heilsugæslu breytt í tveggja og hálfs- og fjögurra ára aldur og því önnur skimunartæki tekin upp.
Nú er EFI-2 komið út í nýrri útgáfu og ætlað til notkunar innan leikskólanna þegar meta þarf málþroska barna sem eru á fjórða ári. Skimunin er stöðluð og áreiðanleiki góður. Fljótlegt er að leggja EFI-2 fyrir og börnum finnst skimunin skemmtileg. Flestir leikskólar á Austurlandi, Vestfjörðum, Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu nota EFI-2. Á annað hundrað leikskólakennarar og þroskaþjálfar hafa lokið réttindanámskeiði og margir hafa lýst yfir mikilli ánægju með notkun EFI-2 til hagsbóta fyrir börnin, foreldra og leikskólastarfið.
Höfundar eru talmeinafræðingarnir Elmar Þórðarson, Friðrik Rúnar Guðmundsson og Ingibjörg Símonardóttir. Teikningar gerði Bryndís Björgvinsdóttir.
Framundan eru tvö réttindanámskeið. Það fyrra verður í 22. febrúar í Reykjavík en það seinna 15. mars á Akureyri. Í bígerð er námskeið á Reykjanesi í samvinnu við skólaskrifstofuna.
Nánari upplýsingar og skráning er hjá: elmar@ismennt.is (eða í síma 897 06 28).
-Fréttatilk.