Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. febrúar. 2013 06:15

Enn dregur úr póstþjónustu í dreifbýli

Póstkassar í dreifbýli Borgarfjarðar í póstnúmerum 311 og 320 verða færðir til á næstunni samkvæmt ákvörðun Íslandspóst. Þar er vísað í reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu sem fyrirtækið vinnur eftir. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hefur verið unnið að flutningi póstkassa í dreifbýli um allt land undanfarin misseri á grunni ákvæða reglugerðarinnar og á nú einungis eftir að framkvæma flutning á dreifingarsvæðum pósthúsanna í Borgarnesi, á Hellu og Hvolsvelli. Í svörum Íslandspósts við fyrirspurn Skessuhorns um þetta segir að flutningur póstkassa komi til vegna þess að verið sé að samræma vinnulag og fara eftir þeim póstlögum sem í gildi eru. Ástæðurnar séu einnig aukinn dreifingarkostnaður í sveitum og minnkandi póstmagn. Stór þáttur í auknum kostnaði sé m.a. hækkun rekstrarkostnaðar bifreiða og minnkandi vetrarþjónusta Vegagerðarinnar. Með þessum breytingum er ljóst að enn hefur dregið úr póstþjónustu í dreifbýli landsins.

Á undanförnum árum hefur pósthúsum verið markvisst fækkað og þá hafa takmarkanir verið settar á heimkeyrslu pósts þyngri en 30 kg sem áður var í boði. Íbúum í dreifbýli stendur hins vegar til boða að kaupa sérferð með sendingar þyngri en 30 kg en þó samkvæmt sérstakri gjaldskrá.

 

Samkvæmt reglugerð sem Íslandspóstur vísar til skal póstkassi í dreifbýli vera staðsettur við eða í húsi ef lengd safnvegar frá tengivegi eða stofnvegi er ekki lengri en 50 metrar. Sé safnvegur allt að 500 metrar skal póstkassi vera staðsettur við vegamót safnvegar við tengi- eða stofnveg. Til áréttingar, þá er safnvegur vegur sem tengir einstakt býli við aðra hluta vegakerfisins á meðan tengi- og stofnvegir eru almennir þjóðvegir. Að jafnaði skal póstkassi þó ekki vera staðsettur fjær en 500 metra frá húsi. Reglugerðin heimilar undanþágur frá því við þrenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi ef tvö eða færri hús eru að meðaltali á hverja tvo kílómetra safnvegar eða tengivegar, í öðru lagi ef ekkert vegasamband er við húsið og í þriðja lagi þegar viðkomandi hús er staðsett langt utan við almenna byggð. Sé um skráðar sendingar að ræða skal þó að jafnaði fara heim að húsi. Íslandspóstur mun leitast við að ná samkomulagi við notendur póstkassa um nákvæma staðsetningu á nýjum stað. Reglugerðin segir jafnframt að hægt sé að sækja um undanþágu og færa póstkassa lengra frá bæjum ef verulegur kostnaður fylgir því að sinna stöku bæjum. Sækja þarf um hvert og eitt tilvik til Póst- og fjarskiptastofnunar eða semja við ábúendur um útfærslu. Að þessum tilfærslum vinnur Íslandspóstur nú og hefur íbúum verið tilkynnt um breytingarnar.

 

Skessuhorn spurðist eftir því hjá Íslandspósti hvort að með þessum breytingum fælist ekki mismunun þar sem íbúar í þéttbýli fá póst inn um lúguna á heimilum sínum á meðan íbúar í dreifbýli þurfa nú að sækja sinn póst í póstkassa fjarri bæjunum. Í svari Íslandspósts kemur fram að samanburð við dreifingarkostnað í bæjum og borgum þurfi að meta út frá kostnaði. Dreifingarkostnaður í sveitum sé að jafnaði sex til sjö sinnum hærri en í þéttbýli. Þar sem fyrirtækið njóti engra ríkisstyrkja þurfi það að mæta auknum kostnaði meðal annars með sparnaði í rekstri af þessu tagi eða með aukinni eða nýrri gjaldtöku. Íslandspóstur lítur þó ekki svo á að breytingin sé íþyngjandi fyrir íbúa í dreifbýli. „Allflestir íbúar í sveit þurfa að erinda eitthvað daglega hvort sem það er vegna búskapar eða annarrar atvinnu og ætti það ekki að teljast íþyngjandi að þurfa að fara í póstkassa,“ segir í svari Ágústu Hrundar Steinarsdóttur upplýsingafulltrúa Íslandspósts.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is