Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. mars. 2013 11:57

Endurskoðun verklags og vinnuskipulags á fæðingadeild HVE

„Við þann atburð sem átti sér stað á fæðingadeild HVE á Akranesi þann 3. janúar 2011 var þegar í stað brugðist við og endurskoðun á starfsemi deildarinnar gerð að forgangsverkefni í ljósi atvika,“ segir Guðjón Brjánsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Hann segir vinnuhóp þriggja ljósmæðra sem starfa hér á Vesturlandi hafi reyndar verið skipaðan þegar haustið 2010 í kjölfar sameiningar heilbrigðisstofnana á Vesturlandi. „Hópurinn vann að endurmati á verkefnum ljósmæðra- og fæðingaþjónustu á starfssvæði HVE í samráði við yfirlækni og deildarstjóra kvennadeildar HVE og dró til sín reynslu af fæðingadeild LSH. Tillögur hópsins lágu fyrir í janúar 2011 og hnigu mjög að því að auka faglega fræðslu og endurmenntun starfsmanna samhliða gerð fræðsluáætlunar. Þessari fræðsluáætlun hefur verið hrundið í framkvæmd og ýmsum þáttum hennar hraðað í kjölfar umrædds atviks,“ segir Guðjón.

Hann segir dæmi um fræðslunámskeið sem haldið var vorið 2011 um fósturritun, þar sem farið var í niðurstöður nýrra rannsókna og úrlestur úr flóknum ritum auk ýmissa grundvallaratriða. Sömuleiðis var haldið námskeið um axlarklemmu og endurlífgun nýbura og sagt frá nýjustu rannsóknum og meðferð. Þá var námskeið um blæðingar í fæðingu, meðferð og lyf. Nýjar verklagsreglur voru kynntar og sagt frá nýlegum rannsóknum. Jafnframt var haldið námskeið um brjóstagjöf að ógleymdu námskeiði um samskipti á vinnustað og fleira mætti nefna.

 

Góð samskipti á öllum stigum

Að sögn Guðjóns Brjánssonar hafa svæfingalæknar HVE tekið alla nýkomna aðstoðarlækna í tíma þar sem farið er yfir endurlífgun og mat á nýburum. Haustið 2012 fór ein ljósmóðir kvennadeildar HVE á svokallað ALSO námskeið sem er umfangsmikið námskeið til þjálfunar í bráðatilfellum á meðgöngu og í fæðingu. Stefnt sé að því að allar ljósmæður og fæðingarlæknar HVE sæki viðlíka námskeið af þessu tagi svo fljótt sem færi gefst. Starfshópur hefur lagt fram nýja áætlun um fræðslu- og endurmenntunarþörf, hvernig hún verði virkjuð, tíðni og sérstakar áherslur, forgangsatriði eru tilgreind. „Lögð er áhersla á að skapa möguleika á tengslum við fræðslustarfsemi Landspítala í fæðingarþjónustu með það fyrir augum að ljósmæður HVE getið notið þar fræðslu endurmenntunar og þjálfunar að hluta til. Hvað varðar gangsetningu við fæðingar er nú alfarið t.d. stuðst við verklagsreglur kvennadeildar LSH og þær staðfærðar,“ segir Guðjón.

 

Hann segir að ýmsar vinnureglur og verklag hafi verið endurskoðað í kjölfar umrædds atviks í janúar 2011. Þetta snerti m.a. mönnun á deildinni, hvenær skuli kalla deildarlækni til aðstoðar og hvenær nærveru sérfræðings er óskað. Það sama eigi við um vinnureglur á meðan á fæðingum stendur og sem snúa að viðmóti gagnvart aðstandendum sem fylgja fæðandi konu. „Eftirleiðis sem hingað til er lögð áhersla á vingjarnleg og góð samskipti á öllum stigum. Fjöldi viðstaddra sé að jafnaði takmarkaður við tvo undir eðlilegum kringumstæðum og mælt með því að notkun farsíma og upptökubúnaðar sé að jafnaði hófsamleg og samráð haft við ljósmóður í þeim efnum fyrir fæðingu,“ segir Guðjón. Þá segir hann að ýmis önnur atriði sem lúta t.d. að faglegri stjórnun, verkaskiptingu á milli legudeilda, þjónustu við sjúklinga, öryggismálum, samskiptum, búnaði og skráningu hafa verið tekin til umfjöllunar á vettvangi framkvæmdastjórnar. Niðurstaða liggur ekki fyrir í þeim öllum.

 

Atvikanefnd

Guðjón Brjánsson segir skráningu og færslu í sjúkraskrá, sem hefur verið umfjöllunarefni í fjölmiðlum, sé enn sem komið er handfærð eins og á öðrum fæðingarstöðum á landinu. „Áhersla er lögð á það í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld að hraða rafrænni innleiðingu. Fagfólk deildarinnar hefur hinsvegar ítrekað fjallað um þennan þátt málsins á vinnufundum sínum og þung áhersla er lögð á nákvæmni og skipulögð vinnubrögð af þessu gefna tilefni. Sett hefur verið á laggirnar atvikanefnd hjá stofnuninni sem hefur það hlutverk að fjalla um atvik sem flokkast undir mistök við veitingu þjónustu. Hana skipa framkvæmdastjóri hjúkrunar, framkvæmdastjóri lækninga og forstjóri. Nefndin hefur jafnframt forgöngu um að tryggja samskipti við sjúklinga og aðstandenda þeirra hverju sinni þegar það á við. Skráning atvika er í föstum skorðum hjá stofnuninni skv. verklagsreglum. Atvikanefnd leggur áherslu á að skráðum óhappatilvikum og mistökum sé fylgt eftir, hratt og markvisst og að slík tilvik fái eðlilega og ítarlega umfjöllun á þeim vettvangi sem við á. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að ferli ágreiningsmála sé skýrt og falli með óumdeildum hætti að því laga- og reglugerðarumhverfi sem stuðst er við,“ segir Guðjón Brjánsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is