Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. mars. 2013 02:01

Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms í máli Lyfja og heilsu á Akranesi

Lyfsölufyrirtækið Lyf og heilsa þarf að greiða hundrað milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið greip til aðgerða sem beindust gegn Apóteki Vesturlands árið 2007. Þetta var staðfest í Hæstarétti Íslands í gær. Eins og kunnugt er lagði Samkeppniseftirlitið 130 milljóna króna stjórnsýslusekt á Lyf og heilsu árið 2010. Sú niðurstaða var staðfest í úrskurðarnefnd samkeppnismála, en sektin var lækkuð niður í hundrað milljónir. Lyf og heilsa höfðaði þá dómsmál til að reyna að fá ákvörðuninni hnekkt en fyrirtækið hefur nú tapað málinu bæði í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti. Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, sem fyrst vakti athygli á málinu hefur nú höfðað einkamál gegn Karli Wernerssyni forstjóra og eiganda Lyfja og heilsu.

 

Misnotuðu markaðsráðandi stöðu

Forsaga málsins er sú að Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, kvartaði til Samkeppniseftirlitsins í júlí árið 2007 um að Lyf og heilsa beitti sértækum verðlagningaraðferðum á Akranesi með það að markmiði að hindra að Apótek Vesturlands næði fótfestu á markaði. Apótek Vesturlands var opnað á Akranesi 30. júní sama ár. Lyf og heilsa, sem var í markaðsráðandi stöðu, tók meðal annars upp vildarkúnnakerfi í versluninni og bauð upp á svokallaða „baráttuafslætti“ sem einungis stóðu til boða í versluninni á Akranesi. Eftir að hafa borist ábending frá Ólafi um að Lyf og heilsa væri að reyna að ryðja Apóteki Vesturlands af markaðinum gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Lyfjum og heilsu og upphófst eftir það rannsókn sem stóð yfir í um tvö og hálft ár. Að henni lokinni úrskurðaði Samkeppniseftirlitið, og síðar áfrýjunarnefnd samkeppnismála, að Lyf og heilsa hefði með aðgerðum sínum brotið gegn samkeppnislögum og misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Lyf og heilsa höfðaði þá dómsmál en hefur nú, eins og áður kom fram, tapað málinu bæði í héraðsdómi og Hæstarétti.

 

Þakkar Skagamönnum stuðninginn

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að þessum þætti málsins er lokið,“ segir Ólafur í samtali við Skessuhorn. Hann hefur nú, eins og áður segir, höfðað einkamál gegn Karli Wernerssyni forstjóra og eiganda Lyfja og heilsu þar sem hann hyggst sækja bætur fyrir það tjón sem aðgerðir fyrirtækisins höfðu á rekstur Apóteks Vesturlands. Hann segir tímann sem málið tók í dómskerfinu verið of langan en fimm ár og átta mánuðir eru liðnir frá því hann hringdi fyrst í Samkeppniseftirlitið. „Dómur sem kemur nærri sex árum eftir að smásöluaðili kvartar er gagnslaus þeim sem stendur í baráttunni, sérstaklega ef meintur brotamaður heldur áfram sinni iðju. Ég er gríðarlega þakklátur Skagamönnum fyrir að hafa tekið slaginn með mér. Þeir tóku afstöðu í þessu máli og að mínu mati er þetta skýrt dæmi þess hvað samtakamáttur neytenda getur þýtt. Dómur neytenda vegur jafnvel þyngra fyrir þann sem kemur óheiðarlega fram heldur en dómur Hæstaréttar,“ segir hann.

„Í sjálfu sér er það óvenjulegt að litlu smásalarnir fari með sigur gegn jafn stórri keðju. Þessi dómur gefur öðrum smásölum von. Eftir að ég hóf rekstur á Apóteki Vesturlands fyrir rúmum fimm árum hafa margar aðrar smásölulyfjaverslanir sprottið upp, til að mynda á Akureyri, í Grafarholti og Garðabænum svo dæmi séu tekin. Þetta brölt okkar á Akranesi hefur því vakið aðra einyrkja í þessum geira til lífs og þeir sjá að þetta er hægt,“ segir Ólafur Adolfsson.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is