Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. apríl. 2013 02:31

Lýsa yfir áhyggjum af sumarlokunum HVE í Stykkishólmi

Sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi verður lokað í fimm vikur í sumar, frá 21. júní til 30. júlí. Einnig verður háls- og bakdeildinni lokað eins og hefð er fyrir frá 14. júní fram í byrjun september. Þetta var kynnt á starfsmannafundi HVE í Stykkishólmi rétt fyrir páska. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar tekur undir með starfsmönnum HVE í Stykkishólmi og stjórn Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi sem hafa lýst yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar lokunar sjúkradeildar.  Að sögn Guðjóns Brjánssonar forstjóra HVE er þetta í þriðja sinn sem þessum aðgerðum er beitt í hagræðingarskyni en síðasta sumar var deildinni lokað í alls sjö vikur, svo lokunin nú er tveimur vikum skemmri en í fyrra. „Líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir höfum við staðið frammi fyrir miklum niðurskurði og okkur verið gert að draga sérstaklega saman á sjúkrasviði, en minna á heilsugæslusviði. Við höfum gert sömu kröfur í hagræðingarskyni á öllum okkar starfsstöðum og þá hafa yfirleitt verið farnar tvær leiðir, annað hvort fækkun starfsmanna eða dregið saman í starfsemi með þessum hætti. Í Stykkishólmi var þetta talinn besti kosturinn svo raskið yrði sem minnst,“ segir Guðjón. Með þessu móti nái stofnunin mestri hagræðingu þar sem á sama tíma sé til að mynda einnig hægt að loka eldhúsi og þvottahúsi.

 

Fullur viðbúnaður á heilsugæslunni

Erla Gísladóttir forstöðukona Dvalarheimilis aldraðra sagðist í samtali við Skessuhorn hafa töluverðar áhyggjur af lokun sjúkradeildarinnar. „Við höfum átt gott samstarf við sjúkrahúsið og þangað fer fólk frá okkur iðulega í hvíldarinnlagnir. Lokanirnar skapa því að sjálfsögðu mikið öryggisleysi fyrir okkur því eins og gefur að skilja á aldrað fólk það til að veikjast. Nú þarf að senda háaldrað fólk enn lengra í burtu, á Akranes eða jafnvel til Reykjavíkur, þar sem fleiri sjúklingar liggja inni. Þá eiga flestir sína aðstandendur hér á svæðinu og því vont fyrir alla aðila að þurfa að ferðast um langa vegalengd,“ segir Erla.

Guðjón telur áhrifin af lokun deildarinnar ekki veruleg. „Samkvæmt núverandi stöðu er um að ræða einn sjúkling sem þarf að flytjast um set tímabundið, sennilega á Akranes. Að fenginni reynslu getum við að auki búist við eitthvað fleiri sjúkraflutningum af Snæfellsnesi til Akraness. Með góðum undirbúningi er hins vegar hægt að skipuleggja hluta af innlögnum fram hjá tímabilinu sem lokað er og á það meðal annars við um hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir sem hægt er að taka fyrir og eftir lokun eins og tíðkast á öðrum stöðum. Búast má við að einhverjir þurfi að leggjast inn á sjúkrahúsið á Akranesi þennan tíma. Þær sjö vikur sem lokað var í fyrra voru níu innlagnir á lyflækningadeildina á Akranesi. Þá má ekki gleyma því að fullur viðbúnaður er á heilsugæslunni í Stykkishólmi þann tíma sem sjúkradeildin er lokuð.Þetta gekk að okkar mati vel í fyrra og engin ástæða að ætla annað í ár.“

 

Ráðist í framkvæmdir á sama tíma

Dvalarheimilið í Stykkishólmi glímir einnig við húsnæðisvandamál en það er til húsa í gamalli heimavist við Skólastíg sem þykir ekki henta starfseminni auk þess sem hún þarfnast orðið verulegra lagfæringa. Líkt og Skessuhorn hefur fjallað um standa nú yfir talsverðar breytingar á starfseminni í Stykkishólmi en gert er ráð fyrir að framkvæmdum við húsnæði HVE í Stykkishólmi verði lokið innan þriggja ára. Til stendur meðal annars að sameina hjúkrunar- og dvalarrými í Stykkishólmi en í dag eru þau rekin á tveimur stöðum og af sitthvorum aðilanum; Stykkishólmsbæ við Skólastíg og Heilbrigðisstofnun Vesturlands við Austurgötu. Áformaðar endurbætur og breytingar á sjúkrahúsinu munu þannig leysa af hólmi byggingu Dvalarheimilisins við Skólastíg. „Á meðan hlé er á sólarhringsstarfseminni er þess vænst að hægt verði að nýta tímann og aðstæðurnar til að hefja framkvæmdir innan húss samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir liggur af hálfu stjórnvalda,“ segir Guðjón Brjánsson forstjóri HVE að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is