Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. apríl. 2013 03:40

Mikil efnistaka úr Fitjaá við hrygningarsvæði urriðans úr Skorradalsvatni

Vinnuvélum er nú beitt við að taka möl úr bökkum Fitjaár í Skorradal en þar var í haust veitt framkvæmdaleyfi til að moka allt að fimm þúsund rúmmetrum af möl á land sem ætluð er til vegagerðar í Skorradal. Mikill skortur hefur verið á nothæfu efni til vegagerðar síðustu árin. Birgi Haukssyni veiðiáhugamanni, sem setti sig í samband við Skessuhorn, mislíkar hins vegar framkvæmdin. „Nú eru vinnuvélar langt komnar með að moka á þurrt hrygningarmölinni úr Fitjaá og þar með stórum hluta þess svæðis sem urriðinn hrygndi á síðasta haust og hefði átt að klekjast út nú í vor,“ segir Birgir Hauksson sem fylgst hefur með hrygningarsvæði urriða úr Skorradalsvatni síðustu árin. Urriðinn í vatninu hefur mjög svo verið að eflast og þroskast á síðustu árum en hann er að stofni til úr Þingvallavatni en fiski var sleppt þaðan um 1975. Urriðinn var lengi að ná sér á strik í vatninu en nú er stofninn orðinn öflugur og gríðarstórir fiskar komist upp, líkt og þeir eiga kyn til úr Þingvallastofninum.

 

 

 

 

Viðkvæmt hrygningarsvæði

Birgi Haukssyni blöskrar þessar aðfarir í Fitjaá og fullyrðir að hér sé verið að vinna náttúruspjöll, en því neitar Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum staðfastlega, enda leggur hún mikla áherslu á að hún sé umhverfisverndarsinni og myndi aldrei beita sér fyrir að ganga á lífríkið með þeim hætti sem Birgir heldur fram. Birgir segir hins vegar þessa framkvæmd umhverfishryðjuverk og brot á lögum um lax- og silungsveiði og megi ekki undir neinum kringumstæðum láta kyrrt liggja. Hann átelur að fiskifræðingar hafi veitt leyfi fyrir efnistöku úr ánni og segir að hrygningarsvæði urriðans úr Skorradalsvatni sé einungis um 250 metra langt svæði í Fitjaá milli bæjanna Fitja og Bakkakots og því tiltölulega lítið og viðkvæmt. Urriðinn geti ekki nýtt til hrygningar aðrar ár eða læki sem renna í Skorradalsvatn eða úr því. Hann segir að malartekjan nú hafi í för með sér óafturkræf spjöll fyrir lífríkið því mölin í ánni endurnýi sig afar hægt og eftir þessar aðfarir standi eftir mold og stórgrýti sem urriðinn hrygni ekki í. Sambærileg malartekja hafi verið fyrir nokkrum árum á litlu svæði neðar í ánni og hafi það ekki jafnað sig á ný.

 

Tekið úr bökkunum

Þessum orðum Birgis mótmælir Hulda Guðmundsdóttir, annar eigandi Fitja í Skorradal, og framkvæmdaraðili með malartekjunni. Hún segir að Fitjaá sé dragá og malarefni bætist sífellt við í ána. Hún fullyrðir jafnframt að einungis sé verið að taka efni úr bökkum árinnar sem yfirleitt séu alltaf á þurru landi. „Þar sem Fitjaá er dragá er mikill munur á vatnsmagni í henni eftir úrkomu, hlýindum og slíku. Þetta svæði sem nú er verið að taka möl úr eru bakkar sem alla jafnan eru á þurru landi. Það er einungis í mestu flóðum sem flæðir þarna yfir, mjög sjaldan á hverju ári. Þá á klaki urriðaseyða að vera lokið þegar komið er fram í apríl þannig að það er engin hætta á að seyði hafi drepist í þessari framkvæmd. Við í innanverðum Skorradal búum hins vegar við skort á efni til vegagerðar og því var nauðsynlegt að fá leyfi til að vinna þarna möl til vegagerðar,“ segir Hulda.

 

Tilskilin leyfi veitt

Öll efnistaka úr veiðiám er háð leyfi og er það Fiskistofa sem gefur út framkvæmdaleyfi eða hafnar efnistöku. Árni Ísaksson er yfirmaður lax- og silungsveiða hjá Fiskistofu og annast útgáfu leyfa til efnisvinnslu úr ám. Að sögn Sumarliða Ásgeirssonar, samstarfsmanns hans á Fiskistofu, var veitt leyfi til að taka allt að 5000 rúmmetra úr bakka árinnar, ekki úr botni hennar. Mjög oft er leitað umsagnar Veiðimálastofnunar vegna leyfa til efnistöku, en það var ekki gert í þessu tilfelli, að sögn Sigurðar Más Einarssonar fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun á Vesturlandi. Jón Kristjánsson fiskifræðingur veitti hins vegar umsögn um efnistökuna í landi Fitja. Loks veitti skipulagsnefnd Skorradalshrepps leyfi fyrir framkvæmdinni að sögn Péturs Davíðssonar sem sæti á í nefndinni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is