Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. apríl. 2013 06:15

Karlakórinn Heiðbjört heldur vortónleika síðasta vetrardag

Karlakórinn Heiðbjört á sunnanverðu Snæfellsnesi efnir til vortónleika síðasta vetrardag, miðvikudaginn 24. apríl. Heiðbjört hefur verið starfandi undanfarin þrjú ár og eru virkir kórfélagar nú 13, að sögn Guðjóns Jóhannessonar kórfélaga og bónda í Syðri-Knarrartungu. Hann segir félaga í kórnum fulla tilhlökkunar fyrir tónleikunum sem verða haldnir í Langaholti í Görðum í Staðarsveit. Stífar æfingar hafa átt sér stað að undanförnu og segir Guðjón skemmtilega tónleika í vændum. ,,Lagaval okkar verður fjölbreytt. Við munum syngja allt frá klassískum íslenskum þjóðlögum til gamalla kóraslagara. Þá munum við syngja nokkur erlend lög við texta félaga í Kvæðamannafélagi Heiðsynninga og fólks úr sveitinni, en margir félagsmenn í kvæðamannafélaginu eru einnig í karlakórnum. Félagið starfar einmitt á sömu slóðum og kórinn. Þannig að í vændum eru flottir og fróðlegir tónleikar,” segir Guðjón. 

Karlakórinn hefur komið fram á nokkrum tónleikum á starfstíma sínum m.a. við opnun Gay Pride hátíðarinnar í Reykjavík og á 1. maí tónleikum í Grundarfirði. Einnig hefur kórinn komið fram á uppákomum í sveitinni. Starfssvæði hans segir Guðjón vera gömlu sveitirnar á sunnanverðu Snæfellsnesi; Breiðuvíkurhrepp, Staðarsveit og Eyja- og Miklaholtshrepp. Stjórnandi Heiðbjartar er Árni Kristjánsson, starfandi þjónn á Hótel Búðum. ,,Við komumst að því að á Búðum leyndist efnilegur kórstjórnandi og reyndist Árni tilkippilegur í embættið þegar við leituðum til hans,” bætir Guðjón við.

En hvernig kom nafn kórsins til? ,,Nafnið kom til á frekar skemmtilegan hátt. Þannig var að við gleymdum alltaf að gefa okkur tíma til að finna nafn eftir að við hófum að æfa en segja má að konan mín hún Guðný Heiðbjört hafi átt nokkurn þátt í því að drífa mig og fleiri karla í sveitinni af stað til að stofna kór. Ekki var enn komið nafn þegar fyrstu tónleikar okkar voru komnir á dagskrá og óðum að nálgast. Við höfðum gantast með það í nokkurn tíma að skýra kórinn í höfuðið á henni og varð úr á lokametrunum. Nafnið hefur haldist síðan og varð konan mín að kyngja þessu á endanum þrátt fyrir smávægileg mótmæli,” segir Guðjón í léttum tón og bætir við að kórfélagar reyni allt til að verða nafninu og konu hans um leið ekki til skammar. ,,Þetta er mikið metnaðarmál hjá okkur - að sjálfsögðu.”

Tónleikarnir í Langaholti eru styrktir af Menningarráði Vesturlands og hefjast þeir kl. 21 en ókeypis er inn. Söngskrá kvöldsins verður síðan höfð til sölu á tónleikunum á sanngjörnu verði fyrir gesti og mun andvirði sölunnar renna til góðs málefnis í sveitinni. ,,Við heitum góðri skemmtun og miklu fjöri. Nú er um að gera fyrir allt tónelskt fólk að skella sér á tónleika út á Nes, kveðja veturinn með stæl og hafa gaman af lífi og tilverunni í leiðinni,” segir Guðjón að lokum og býður alla að sjálfsögð velkomna í Langaholt síðasta vetrardag.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is