Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. apríl. 2013 04:01

Samstarf menntastofnana rætt á Menntaþingi í Borgarbyggð

Á morgun, föstudag, verður efnt til Menntaþings í Borgarbyggð sem fram fer í Hjálmakletti. Markmið þingsins eru fjölþætt en meginmarkmiðið er að fá þátttakendur til að velta fyrir sér og svara spurningunni: „Hvernig geta menntastofnanir í Borgarbyggð unnið saman?“ Fjórir stjórnendur borgfirskra menntastofnana hafa unnið að skipulagningu menntaþingsinsundanfarin misseri ásamt fleirum. Þetta eru þær Steinunn Baldursdóttir leikskólastjóri í Klettaborg í Borgarnesi, Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Kristín Gísladóttir leikskólastjóri í Uglukletti í Borgarnesi og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar. Menntaþingið er að stofninum til lokaafurð verkefnis sem þær unnu að í náminu Sterkari stjórnsýsla við Háskólann á Bifröst sl. vor og fólst í því að skipuleggja slíkt þing. Eftir að þær kynntu verkefni sitt fyrir fræðslunefnd Borgarbyggðar var afráðið að halda þingið og er það nú að verða að veruleika.

Ræða hvar tækifæri leynast

Í samtali við Skessuhorn segja þær stöllur að mörg tækifæri séu til staðar til að auka samstarf menntastofnana í Borgarbyggð. Mikil þekking og reynsla búi innan allra stofnana sveitarfélagsins sem gjarnan megi miðla í meira mæli milli þeirra og um leið styrkja og þróa starf skólanna í leiðinni. Markmið þingsins er að ræða hvar þessi tækifæri leynast og kalla fram hugmyndir að mögulegum útfærslum þeirra. Einnig vilja þær draga fram það samstarf sem nú þegar er í gangi. Sem dæmi hefur verið farsælt samstarf milli grunnskóla og leikskóla þar sem leikskólabörnum er kynnt næsta námsstig, tónlistarskólinn hefur í mörg ár verið tengdur starfi grunnskólanna og þá hefur samstarf verið byggt upp milli Menntaskóla Borgarfjarðar og grunnskólanna í Borgarbyggð þar sem nemendur á efsta stigi hafa stundað nám á menntaskólastigi í einstökum áföngum. Einnig hefur MB átt í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri einnig sem leikskólar í héraðinu hafa átt í samstarfi við menntaskólann og háskólana.

 

Héraðið er menntahérað

Að auki er markmið þingsins að draga fram í dagsljósið þá miklu flóru af menntastofnunum sem er í Borgarbyggð og fá starfsfólk þeirra, foreldrafulltrúa og sveitarstjórnarmenn til að kynnast sín í milli. Að þeirra mati er menntastarf ein sérstaða Borgarfjarðar og að því verður að hlúa. Alls eru menntastofnanirnar 13 talsins, fimm leikskólar, tveir grunnskólar, menntaskóli, tveir háskólar, tónlistarskóli, dansskóli og símenntunarmiðstöð, sem allar þjóna fólki á öllum aldri. Með þessu vonast þær til að góð kynning fáist á héraðinu sem hérað mennta og miðstöðvar öflugs og framsækins skólastarfs á öllum stigum. Sama dag og þingið fer fram verður opið hús í menntastofnununum 13 frá kl. 9-11 og eru allir áhugasamir hvattir til að heimsækja þær og kynnast starfinu sem þar er unnið.

 

Lífleg dagskrá

Dagskrá þingsins verður með líflegu sniði og leggja skipuleggjendur áherslu á að hafa léttleikann í fyrirrúmi til að skapa góða stemningu. Húsið opnar kl. 15 með tónlistaratriðum frá ungu borgfirsku tónlistarfólki en rúmum hálftíma síðar verður þingið sett. Eftir setningu flytur Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra stutt ávarp. Páll Brynjarsson sveitarstjóri tekur þá við keflinu og stýrir kynningu á öllum menntastofnunum héraðsins. Þá tekur við hópavinna þar sem starfsmenn menntastofnananna og aðrir gestir þingsins ræða efni þess og skrá niður hugmyndir. Eftir hópavinnu verður gert grein fyrir niðurstöðum hópavinnunnar, boðið upp ádansatriði og loks sunginn Menntaþingssöngurinn 2013, sem er lagið Tondeleyjó við texta Theodóru Þorsteinsdóttur um inntak þingsins.

 

Allar vonast þær til að eftir þingið verði til fjölbreytt safn hugmynda um mögulega samstarfsfleti til framtíðar sem unnið verður að á næstu misserum. Að lokum benda þær á heimasíðu verkefnisins, www.menntathing.weebly.com, þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um menntaþingið.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is