Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. apríl. 2013 09:30

Fjölmennur fundur um áhrif síldardauðans í Kolgrafafirði

Umhverfis- og auðlindarráðuneytið og Grundafjarðarbær stóðu í gær fyrir opnum fundi um síldardauðann í Kolgrafafirði. Vel var mætt á fundinn þar sem fjallað var um rannsóknir á lífríki og umhverfi, vöktun svæðisins, hreinsunaraðgerðir og viðbúnað fyrir framtíðina. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mætti á fundinn en auk hennar voru fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Vesturlands, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Vegagerðinni auk heimamanna. Sigurborg Kr. Hannesdóttir forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar var fundarstjóri. Svandís Svavarsdóttir tók fyrst til máls þar sem að hún fór yfir ferlið frá því að fyrri síldardauðinn varð og fram til dagsins í dag; umfang síldardauðans og aðkomu stjórnvalda. Þar tók hún fram að tilgangur fundarins væri ekki að finna sökudólg heldur að læra af þessu áfalli.

 

 

 

 

Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar, þau Þorsteinn Sigurðsson og Sólveig R. Ólafsdóttir, fóru yfir hegðun síldarstofnsins og áhættuna að þetta geti gerst aftur. Í máli þeirra kom fram að þann 11. desember á síðasta ári eða aðeins þremur dögum fyrir fyrri síldardauðann var Hafrannsóknastofnun við mælingar innan brúar og mældust þá rétt tæp 300.000 tonn af síld í firðinum. Svo þann 18. desember var tekið snið eftir firðinum og áætlað að um 30 þúsund tonn af síld hafi drepist í fyrra skiptið. Í seinna skiptið þann 1. febrúar einskorðaðist síldardauðinn við vestari hluta fjarðarins og þá var áætlað að um 22 þúsund tonn hafi drepist. Í þeirri mælingaferð mældist einnig minnsta súrefni í sjó í firðinum, sem mælst hefur hér við land.

 

Fuglalíf hefur stóraukist

Helgi Jensson frá Umhverfisstofnun fór yfir hreinsunaraðgerðir og hvernig þeim hefur verið háttað. Þar skýrði hann út að um 1.300 tonn af grút hafi verið flutt til urðunar en um 20 þúsund tonn af grút hafi verið grafinn í fjörunni. Þessi aðgerð heppnaðist mjög vel. Róbert Arnar Stefánsson tók næstur til máls og fór yfir ástand fuglalífs áður og eftir að síldin vandi komu sína í Breiðafjörðinn. Hjá honum kom fram að gríðarleg fjölgun fugla hefur verið eftir 2006 og einnig fleiri tegundir. Fuglum fjölgaði úr 2.000 upp í 10.000 eftir 2006 og árið 2012 er áætlað að fugli hafi fjölgað upp í 25.000. Þá skýrði hann frá því að grútarblautir fuglar hafi sést og að svæðið hafi verið vaktað. Einnig kom hann inn á mikilvægi þess að halda áfram rannsóknum í firðinum og að gera góða skýrslu sem hægt væri að læra af.

 

Þakklát fyrir hreinsunarstarfið

Því næst fóru Bjarni Sigurbjörnsson og Guðrún Lilja Arnórsdóttir á Eiði stuttlega yfir þeirra upplifun af þessu öllu saman og þökkuðu þau öllum sem á fundinum voru staddir fyrir aðkomu þeirra að hreinsun og ferlinu í kringum síldardauðann.

Helgi Helgason frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands kom inn á mikilvægi þess að passa upp á matvælaframleiðslu á Eiði og að Heilbrigðiseftirlitið fylgist með ástandinu og taki sýni af svæðinu.

 

Næstu skref

Sólveig R. Ólafsdóttir frá Hafrannsóknastofnun skýrði svo frá rannsóknarverkefni sem byrjar í sumar og verður allan næsta vetur. Þá verður hringrás vatnsins í firðinum mæld, selta, hiti og vatnsskipti.

Jón Helgason frá Vegagerðinni skýrði frá rannsókn á áhrif þverunar yfir Kolgrafafjörð og eins aðrar þveranir sem búið er að gera. Einnig mun Vegagerðin vera í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnun vegna rannsóknar á síldardauðanum.

Þegar allir höfðu lokið sínum erindum voru umræður. Þar var meðal annars ýjað að því að auka kvótann svo hægt væri að veiða síldina í staðinn fyrir að láta hana drepast uppi í fjöru. Einnig var að því spurt hvers vegna Kolgrafafjarðarbrúin var ekki byggð yfir álinn í stað þess að færa hann 500 metra vestur og breyta þar með hringrás vatnsins. Vegagerðin svaraði því að kostnaður væri helsta ástæða þess að ekki var brúað beint yfir álinn.

Að endingu tók Svandís Svavarsdóttir aftur til máls þar sem hún skýrði frá því að áframhaldandi hreinsun sé í höndum ráðuneytanna og að svæðið verði áfram vaktað. Einnig er ætlunin að gera ýtarlega skýrslu um allt ferlið svo að læra megi af þessu. Gera svo viðbragðsáætlun ef þetta myndi gerast aftur. Að lokum sagði ráðherra að þeir sem að málinu hafi komið megi vera stoltir af því sem búið er að vinna því það sem var aðhafst var einstaklega vel gert. Hlaut Svandís lófaklapp í lok fundar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is