03. maí. 2013 02:29
Þrjátíu og einn nemandi útskrifaðist frá Stóriðjuskóla Norðuráls fimmtudaginn 2. maí sl. Er þetta fyrsta útskriftin úr Stóriðjuskólanum en markmið hans er að auka færni og þekkingu nemenda á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli og bæta þannig árangur í rekstri. „Með aukinni þekkingu starfsmanna stuðlum við að gagnkvæmum skilningi á störfum hvers annars, bættri stjórnun og öruggara vinnuumhverfi. Það stuðlar líka að auknum samskiptum og samvinnu á milli vinnuhópa og svæða innan álversins. En það er ekki bara Norðurál sem styrkist við Stóriðjuskólann, það á ekki síður við nemendur. Það að hafa lokið Stóriðjuskólanum gerir starfsmenn færari um að taka að sér aukna ábyrgð innan fyrirtækisins og opnar þannig ný tækifæri fyrir fólk. Einnig hef ég trú á því að Stóriðjuskólinn efli fólki sjálfstraust til að afla sér frekari náms á eigin forsendum,“ sagði Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga í ávarpi við útskriftina.
Líkt og Skessuhorn hefur áður sagt frá gerði Norðurál samning við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi og Fjölbrautaskóla Vesturlands um skipulagningu og framkvæmd námsins, en auk þess koma sérfræðingar frá Norðuráli að kennslunni. „Þetta verkefni er gott dæmi um hvernig má brúa bilið á milli menntastofnana og atvinnulífsins á svæðinu,“ segir Inga Dóra Halldórsdóttir, verkefnisstjóri Stóriðjuskólans og framkvæmdastjóri Símenntunar á Vesturlandi. Mikill áhugi er á náminu meðal starfsmanna Norðuráls og er stefnt að því að bjóða upp á framhaldsnám við Stóriðjuskólann haustið 2013, til viðbótar við grunnnámið.