22. maí. 2013 09:52
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, munu í dag klukkan 11:15 skrifa undir stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Íslands og kynna stefnuskrá flokkanna. Umgjörð fyrir undirritun og kynningu var valin á Laugarvatni í sögufrægri byggingu fyrrum Héraðsskólans. Húsið var á síðustu árum gert upp bæði að utan og innan og er hin glæsilegasta bygging. Pálmi Hilmarsson húsvörður á Laugarvatni sagðist í samtali við Skessuhorn vera stoltur af þessari staðsetningu sem formenn væntanlegra ríkisstjórnarflokka völdu til að hefja formlega samstarf sitt. "Húsið er náttúrlega sögufrægt. Hér fór héraðsskóli af stað árið 1928 en það var að frumkvæði Jónasar frá Hriflu og Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins að héraðsskóla á Suðurlandi var fundinn staður á Laugarvatni. Hér var skólinn svo rekinn í áratugi. Fyrir nokkrum árum var síðan ráðist í að gera skólabyggingarnar upp, bæði að utan sem innan, og bíða húsin nú eftir nýju hlutverki sem verður á sviði ferðaþjónustu. En hér verður Laugarvatnsstjórnin hins vegar mynduð fyrst," sagði Pálmi húsvörður í samtali við Skessuhorn.