22. maí. 2013 11:51
Jeppi valt á Borgararfjarðarbraut á tíunda tímanum í morgun skammt frá bænum Innri-Skeljabrekku í Andakíl. Tveir voru í jeppanum sem valt í beygju. Beita þurfti klippum á bílinn til að ná ökumanni hans út, en ökumaðurinn og farþegi hlutu nokkra áverka við veltuna. Þeir voru fluttir með sjúkrabíl til Reykjavíkur á Landspítalann til aðhlynningar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Borgarfirði og Dölum sluppu ökumaður og farþegi jeppans þrátt fyrir allt vel miðað við alvarleika slyssins, en jeppinn valt nokkra hringi áður en hann staðnæmdist dágóðan spöl frá veginum. Báðir voru í bílbeltum og sagði lögreglumaður á vakt að sú ráðstöfun hafi komið í veg fyrir að ekki hafi farið verr. Rétt væri því að minna fólk að hafa bílbeltin ætíð spennt. Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglunni en jeppinn er gjörónýtur.