27. maí. 2013 08:01
Hópur frá Félagi eldri borgara á Akranesi og nágrenni tók þátt í Íslandsmeistaramóti í dansi, sem fram fór í Kópavogi nýverið. Þetta er keppni sem stóð yfir í tvo daga en keppt er í ýmsum dönsum; samkvæmisdönsum, einstaklingsdönsum og fólk á öllum aldri. Tvö félög eldri borgara tóku þátt og kepptu í línudansi fullorðinna, félagið á Akranesi og hópur úr Kópavogi. Að sögn Ingimars Magnússonar formanns FEBAN var gríðarlega skemmtilegt að taka þátt í þessari miklu danshátíð sem Íslansmeistaramótið er. Þátttaka þar eykur möguleika fólks til keppni t.d. á erlendri grundu þar sem alþjóðlegir dómarar dæmdu á því. Setti það ákveðinn standard á mótið.Að sögn Ingimars er vetrarstarfi FEBAN nú lokið. Við tekur útivera, svo sem pútt á Garðavelli tvisvar í viku á mánudögum og fimmtudögum klukkan 13-15.
„Ég hvet fólk til að mæta í púttið, ekki er nauðsynlegt að kunna neitt í golfi enda öllum leiðbeint á svæðinu. Þá má geta þess að fólk frá okkur mun taka þátt í Landsmóti 50+ sem fram fer í Vík í Mýrdal 7.-9 júní. Til dæmis verður sveit vaskra briddsspilara og sterkar líkur á að bocciahópur frá okkur mæti líka,“ segir Ingimar.